131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[15:28]

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég skal vera stuttorður.

Þar sem málshefjandi, hæstv. forsætisráðherra, var ekki í salnum, að ég held, þegar ég flutti ræðu mína í dag vildi ég aðeins hnykkja á sérstöku atriði úr þeirri ræðu og beina til hans stuttri spurningu.

Í 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er gerðardómi að beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt á milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir gerðardómsins, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og tekur þá gerðardómurinn ekki ákvörðun um þau atriði sem svo háttar til um.“

Með hliðsjón af þessum orðum vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort sé ekki tilgangs- og ástæðulaust að draga það að skipa þennan gerðardóm til 15. desember 2004 þar sem greinilega væri hægt að gera og koma á framfæri heildarsamningi hvenær sem er á starfstíma gerðardómsins.

Eins og ég gerði fyrr í dag vil ég hæla þeim sem sömdu þetta plagg fyrir að setja þetta ákvæði inn og upphefja þar með þá nauðsyn að draga upphaf vinnunnar. Ég beini þessum tilmælum til hæstv. forsætisráðherra og óska eftir svari hans við því hvort hann telur ekki mögulegt, með hliðsjón af þessari grein, að breyta frestinum þannig að gerðardómur taki til starfa strax og störfum hans ljúki þeim mun fyrr.