131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[15:32]

Pétur Bjarnason (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að nauðsynlegt er að hafa svigrúm en samkvæmt því sem gert er ráð fyrir er gerðardómurinn að störfum mánuðum saman. Svigrúmið hefur auðvitað verið skert með því að upphefja verkfall, þar með er annar aðilinn á nokkuð fríum sjó og þess varla að vænta að samningar takist þegar engin pressa er á þann aðila.

Þar að auki hefur komið mjög skýrt fram að bilið á milli aðila er enn að breikka. Ég gef mér að það séu ekkert endilega miklar líkur á þessu samkomulagi. Það er þó vissulega möguleiki en hann er jafnmikill þótt ekki sé dregið í mánuð að hefja störf gerðardómsins. Á þessum tíma, fram til 15. desember, mundi hann hvort sem er ekki gera annað en að safna gögnum þannig að ég er enn þá á þeirri skoðun að sú umrædda málsgrein sem ég vitnaði til áðan sé fullnægjandi svigrúm fyrir aðila til að geta náð samkomulagi.