131. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:16]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þau eru ekki létt, þessi spor í ræðustólinn í gær og í dag þegar við ræðum frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum, enda ekki að furða því að báðir deiluaðilar þessarar deilu eru mótfallnir því að lög af þessu tagi verði sett.

Inngrip af þessu tagi hefur gífurlega alvarlegar afleiðingar og við sem sitjum fundi allsherjarnefndar fengum það upplýst frá fulltrúa BHM sem heimsótti okkur á fund í morgun að ekki væri enn gróið um heilt eftir lagasetninguna á BHM 1990. Við erum að tala um 14 ár. Það er kannski fyrst núna, sagði formaður og framkvæmdastjóri BHM, sem segja má að það sé að gróa um heilt. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hversu gríðarlega alvarlegar afleiðingar inngrip af þessu tagi geta haft. Enginn sem hefur að þessu máli komið hjá allsherjarnefnd hefur ýkt neitt um það, fólk hefur verið mjög hófstillt í yfirlýsingum sínum í þessum efnum.

Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif þessi lagasetning getur haft á kennara, skólastarf og þar með börnin okkar þegar kennararnir verða dæmdir til að koma í vinnuna á mánudaginn. Það getur ekki verið að kennarar mæti í vinnuna með bros á vör og það getur ekki orðið tóm ánægja í skólanum á mánudaginn eða næstu daga þar á eftir vegna þessa inngrips, vegna þess sem löggjafarsamkundan telur sig vera neydda til að gera hér, þ.e. meiri hluti þessarar löggjafarsamkundu, ríkisstjórnin, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn.

Það kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur á hvern hátt stjórnarandstaðan hefur reynt að höndla þetta mál og mótað sér um það mjög afdráttarlausa skoðun. Hún er sú að þessi lagasetning verði ekki til bóta, við erum andvíg henni, við teljum ekki réttlætanlegt að kjörum sé skipað með lögum. Það er ekkert í þessari stöðu sem við sjáum að réttlæti þær gjörðir sem hér fara fram, því miður.

Frumvarp þetta dæmir af kennurum þau sjálfsögðu og lögvörðu réttindi sem fólgin eru í verkfallsréttinum. Það eitt og sér er gríðarlega alvarlegur dómur. Ein af hættunum sem 3. gr. í frumvarpinu felur í sér er sú að kennarar verði dæmdir inn á kjör sem þeir eru búnir að hafna í miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Svo þröngt er einstigið sem gerðardómnum er skipað að feta í dómi sínum. Þar er honum gert að feta það einstigi sem afmarkast af almennri þróun á vinnumarkaði, stöðugleika efnahagsmála og að forsendum annarra kjarasamninga verði ekki raskað og síðan því að taka hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geti talist grunnskólakennurum að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð.

Þeir gestir allsherjarnefndar sem tjáðu sig um þessa grein voru allir sammála um að þetta væri óframkvæmanlegt. Einstigið í 3. gr. er marklaust, fullkomlega marklaust vegna þess að það er ekki hægt að feta það. Hendur gerðardómsins eru þegar bundnar, hann er settur í slíka klemmu að hann getur ekki kveðið upp úrskurð sem gerir hvort tveggja, raskar ekki forsendum annarra kjarasamninga en hjálpar jafnframt kennurum að halda í við viðmiðunarhópa sína.

Sem sagt, ónothæfar forsendur í 3. gr. eru meðal þess sem minni hlutinn í allsherjarnefnd og stjórnarandstaðan mótmælir.

Eitt af því sem kom fram við umræðu í gær, 1. umr. málsins, var að bannað yrði með þessum lögum að bæta kennurum skaðann af verkfallinu. Um þetta spurðum við í allsherjarnefndinni þá aðila sem sömdu frumvarpið og það er rétt að hér upplýsist að þeir aðilar sem standa að frumvarpinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hafa samið frumvarpið, lögfræðingar sem hafa komið að því, fullyrða að þessi túlkun sem hér var viðhöfð í gær sé ekki rétt. Þeir segja að gerðardómurinn hafi frjálsar hendur um það hvort kennurum verði dæmdar bætur fyrir verkfallið, ef það má orða það svo, eða hvort fyrir þá löngu vinnustöðvun sem kennarar hafa átt í komi einhvers konar eingreiðsla, eins og t.d. miðlunartillaga ríkissáttasemjara gerði ráð fyrir. Hún var reiknuð, sérstaklega reiknuð tala sem innifól frestun á breytingu kennsluskyldu, og þó að aðilar hafi ekki litið á þetta sem bætur fyrir verkfall vitum við alveg að þegar löng vinnustöðvun hefur átt sér stað hafa eingreiðslur af þessu tagi sem hafa þó eðlilega skýringu og skilgreiningu mikil áhrif á það hvernig verkfalli er lokið, hvernig mórallinn verður í stéttinni sem hefur þurft að búa við vinnustöðvunina þegar aftur er mætt til vinnu. Þær yfirlýsingar komu hér fram. Þeir sem standa að frumvarpinu telja hendur gerðardómsins hvað þetta varðar ekki bundnar, og það er mjög mikilvægt.

Segja má að kennarar séu ekki öfundsverðir af því sem hér er yfirvofandi. Þeir eiga það yfir höfði sér að vera hýrudregnir um næstu mánaðamót eins og við vitum enda fengu kennarar greidd full laun 1. nóvember og sveitarfélögin eiga þar af leiðandi inni hjá kennurum. Jafnvel horfir til þess að kennarar fái engin laun fyrr en eftir áramót. Þetta ástand gerir það að verkum að erfitt verður að koma í skólana á mánudaginn. Í því sambandi vil ég taka undir orð gesta allsherjarnefndarinnar, þeirra Bergþóru Valsdóttur og Elínar Thorarensen frá Samfoki og Heimili og skóla, sem lýstu miklum áhyggjum af því við allsherjarnefndina hvernig andrúmsloftið yrði þegar skólinn yrði kallaður aftur saman, þegar kennarar kæmu aftur til starfa.

Þær sögðu, virðulegi forseti, við allsherjarnefndina að mjög mikilvægt yrði að draga sem mest væri mögulegt úr þeim neikvæðu áhrifum sem lagasetningin hefur. Börnin og fjölskyldurnar þurfa ekki á því að halda að fá óánægða kennara, sem hafa fengið á sig lagasetningu af þessu tagi, inn í skólana á mánudaginn. Þær sögðu: Við þurfum innihaldsríkt skólastarf og við fáum það ekki með óánægðum kennurum. Við fáum það ekki með kennurum sem hafa þurft að lúta lagasetningu af því tagi sem hér er fram reidd.

Hæstv. forseti. Samfélagið vill fá hæft og gott fólk inn í skólana, um það hefur ríkt sátt. Hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt það fullum fetum að nauðsynlegt sé að grunnskólarnir eigi kost á hæfu og vel menntuðu fólki. Það vita samt allir og hæstv. ríkisstjórn þar með að við fáum ekki hæft og gott fólk inn í skólana nema greiða því góð laun, það liggur alveg á borðinu. Það er nauðsynlegt að ráðamenn geri sér grein fyrir því hvað hér er í húfi með þeirri lagasetningu sem liggur á borðum okkar og við erum að fjalla um.

Hæstv. forseti. Ég get einungis lýst því hér yfir í lok ræðu minnar að ég tek undir öll þau atriði sem fram koma í nefndaráliti minni hlutans um þetta mál. Það er sannarlega ekki með bros á vör sem maður heldur þessar ræður hér í tilefni af þessari lagasetningu. Hér er óhóflega þröngur stakkur skorinn, óhóflega stuttir frestir settir og óhóflega að öllu þessu máli staðið. Í grunninn snúast við í manni innyflin við að þurfa að fara yfir þessa lagasetningu vegna þeirrar einföldu grunnreglu sem öll mín sannfæring segir að það eigi ekki að skipa kjörum með lögum.