131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:03]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir átta vikna verkfall er starfsemin í grunnskólum landsins í uppnámi. Áhrif deilunnar verða langvarandi á allt innra starf skólanna, áhrif sem geta varað um langt árabil og verða seint upp unnin að fullu, áhrif sem bitna á börnunum og skólagöngu þeirra tíu árganga sem nú verma bekki grunnskólans. Kennararnir ganga kúskaðir og svínbeygðir til starfa, samningsrétturinn tekinn af þeim með lagasetningu sem í 3. gr. skipar gerðardómi fyrir um að ekki megi jafna kjör grunnskólakennaranna til jafns við kjör framhaldsskólakennara. Skilaboðin eru reiðarslag fyrir kennarastéttina. Stéttin finnur sig niðurlægða eftir langa deilu sem lauk með lagasetningu, og hljóta áhrifin á það viðkvæma og mikilvæga starf sem stéttin vinnur að verða veruleg auk þess gríðarlega taps sem orðið hefur á skóladögum. Um 1,5 milljónir skóladaga hefur nú glatast í íslenskum grunnskólum á þessu eina hausti. Atgervisflótti getur blasað við í stéttinni með verulega alvarlegum afleiðingum fyrir menntunina í landinu.

Hvernig á að mæta afleiðingum verkfallsins var ekki hluti af lagasetningu en hæstv. forsætisráðherra gaf til kynna í umræðum í síðustu viku að málið hefði verið rætt í ríkisstjórn og að hæstv. menntamálaráðherra mundi síðar greina frá því. Vandséð er hvernig börnunum verður bættur skaðinn en þeim skaða verður að mæta með öllum tiltækum ráðum. Það er á ábyrgð hæstv. menntamálaráðherra að leggja til samræmdar tillögur til að mæta þeim afleiðingum og skaða verkfallsins á skólagöngu barnanna í landinu.

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hyggist beina til sveitarfélaganna tillögum að samræmdum aðgerðum til að bæta börnunum skaðann sem orðið hefur á námi þeirra og skólagöngu vegna hinna langvarandi kjaradeilu. Mun hæstv. ráðherra ræða afleiðingar verkfallsins fyrir menntun barnanna í ríkisstjórn og mun ráðherrann leggja til samræmdar aðgerðir við sveitarfélögin í landinu til að mæta afleiðingum verkfallsins á skólagöngu barnanna?

Þessum spurningum verður að svara mjög skýrt um leið og menn hljóta að leggjast á þær árar að koma skólastarfi landsins í samt lag aftur.