131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:17]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á góðri stundu hefur hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður menntamálanefndar og forseti bæjarstjórnar Kópavogs, oft sagt að nauðsynlegt sé að stórbæta kjör kennara. Ríkisstjórnin hefur stundum lýst þessu yfir líka. Stjórnarmeirihlutinn hefur stundum lýst þessu yfir, einkum þegar alþingiskosningar eru í nánd.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að leysa þennan vanda, og það er vandi. Vandinn er sá að sum sveitarfélaganna — ég legg áherslu á að það eru sum — eiga í miklum fjárhagserfiðleikum. Allir sanngjarnir menn, allir þeir sem vilja leysa þetta erfiða mál, hljóta að verða að horfast í augu við það.

Þess vegna lögðum við til í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að ráðist yrði í skattkerfisbreytingar sem væru til þess fallnar að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Við lögðum fram þingmál þess efnis. Við höfum með öðrum orðum komið fram með uppbyggilegar tillögur til að leysa þetta mál, til þess að unnt sé að verða við sanngjörnum kröfum kennara og annarra starfsmanna sveitarfélaganna um verulegar kjarabætur.