131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:21]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þau voru mikil, vonbrigðin með svör hæstv. menntamálaráðherra. Fyrir réttri viku gaf hæstv. forsætisráðherra það skýrt til kynna í fyrirspurnatíma á hinu háa Alþingi að þetta mál hefði fyrir töluverðu síðan verið rætt í ríkisstjórn, línur lagðar og innan skamms mundi hæstv. menntamálaráðherra skýra frá því hverjar hennar samræmdu tillögur yrðu til að mæta þeim grafalvarlegu afleiðingum sem verkfallið hefur á skólagöngu barnanna í landinu.

Svör hæstv. menntamálaráðherra voru í besta falli óskýr og þokukennd og skora ég á hana að skýra mál sitt hérna með afdráttarlausum hætti, taka frumkvæði í málinu og leiða það til lykta hvernig við bætum börnunum í landinu þann skaða sem orðið hefur á skólagöngu þeirra. Skólaganga tíu árganga Íslendinga hefur beðið skaða og hæstv. menntamálaráðherra ber ábyrgð á því, og ber ábyrgð á því hvernig við mætum þeim skaða.

Þá gat ég ekki annað en túlkað orð forsætisráðherra þannig að hann ásakaði kennara um lögbrot. Því vildi ég spyrja hvað hann hefði fyrir sér í því, hvort hann væri að saka þá um samræmdar aðgerðir og hvaða vitneskju hann hefði um það.

Hæstv. menntamálaráðherra verður að skýra það mjög afdráttarlaust hvernig hún ætlar að bæta börnunum skaðann.