131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[16:08]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þá eindregið nota tækifærið og hvetja hæstv. umhverfisráðherra til að kynna sér þetta mál, t.d. með því að lesa ágæta nokkurra ára gamla bók eftir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Urriðadans heitir hún og þar er að finna afar góðar lýsingar á þessum mjög svo merkilega fiskstofni.

Ég hvet líka hæstv. umhverfisráðherra til að beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að farið verði eftir þingsályktun sem var samþykkt hér í þessum sal fyrir einum sex árum, þingsályktuninni sem ég nefndi áðan um endurreisn Þingvallaurriðans. Ég hygg að ríkisstjórnin hafi hreinlega tekið þá ágætu þingsályktun og stungið henni ofan í skúffu og þar sé hún enn. Sú nefnd sem ríkisstjórninni var falið að skipa hefur líklega aldrei verið skipuð. Hafi hún verið skipuð hef ég ekki orðið var við að hún hafi skilað neinu af sér á þeim sex árum sem hún hefði þá átt að vera til. Þetta sætir mjög mikilli furðu því að ég er hér með fyrir framan mig umræður sem fóru fram í þinginu á þeim tíma. Það voru mjög merkar og gagnlegar umræður og það var ekki annað að sjá en að allt Alþingi nánast væri mjög einhuga um að það ætti að fara í þessa vinnu. Ég get ekki séð að eftir neinu sé að bíða lengur þó að menn hafi reyndar beðið með hendur í skauti í sex ár. Það er kominn tími til að einhenda sér í þetta verk og fjarlægja þessa stíflu.