131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[16:19]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. ráðherra um með hvaða hætti menn setja fram greinargerðir. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að það sé varhugavert af hvaða ráðherra sem er að setja fram fullyrðingar í greinargerð með frumvarpi sem annar maður er höfundur að og að vera ekki fyllilega sammála þeim. Mér sýnist það á hæstv. ráðherra, en ætla ekkert að inna hana frekar eftir því, að hún hafi töluverðar efasemdir um þetta.

Ég er klár á því að innan þeirra stofnana sem hæstv. ráðherra hefur yfir að ráða eru efasemdir um þetta. Það veit ég. Ég ætla ekki að segja neitt frekar um það.

Ég fagna því hins vegar að hæstv. umhverfisráðherra tekur undir að í framtíðinni kunni að vera fýsilegt að byggja upp umferðaræð frá Reykjavík og suður í Árnessýslu sem liggi eftir núverandi Nesjavallaleið í gegnum hin fallegu Henglafjöll og síðan yfir hjá Ljósafossi. Ég er alveg sannfærður um að það yrði til hagsbóta, bæði fyrir Reykvíkinga sem sækja mjög á þessar slóðir, en ekki síður fyrir lífríkið á umræddum slóðum. Ég held að það yrði ef til vill mestur ávinningur fyrir það.