131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:36]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. framsögumanni fyrir skilmerkilega framsöguræðu um afskaplega merkilegt mál, um rannsókn á þróun valds og lýðræðis, hvorki meira né minna. Ég hef nú aðeins átta mínútur til að fjalla um þetta yfirgripsmikla mál en ég vil taka undir þau meginsjónarmið sem fram koma með þessari þingsályktunartillögu, einfaldlega af þeirri ástæðu að lýðræðið og það vald sem í samfélaginu er, og við höfum skipað okkur í það form sem við köllum lýðræði, er líklega eitt af mikilvægustu hugtökum sem við fjöllum um hér, ég tala nú ekki um á þeim stað sem við stöndum á núna.

Umræðan um þetta getur að sjálfsögðu verið endalaus og hægt að nálgast efnið út frá ótal mörgum hliðum og sjónarhornum, eins og reyndar þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir. Ég hefði samt haldið, virðulegur forseti, að í anda þingsályktunartillögunnar hefði verið hyggilegra að leita eftir meðflutningsmönnum úr öllum flokkum. Þessi tillaga er einmitt af slíkum toga. Þetta er mál sem ég trúi ekki að sé nokkur pólitískur ágreiningur um, þ.e. að fara í faglega umfjöllun um þetta mikilsverða hugtak og um þróun valds og lýðræðis.

Í þessu sambandi þurfum við aðeins að velta upp hugtakinu lýðræði. Samkvæmt orðsins hljóðan merkir það að lýðurinn skuli ráða, þ.e. þátttaka fólksins, og við getum borið okkur saman við aðrar þjóðir, ég tala nú ekki um Bandaríkjamenn þar sem nýafstaðnar eru kosningar bæði til þings og forseta. Eins og kunnugt er er kosningaþátttaka þar afskaplega döpur, flókið kerfi og erfitt, meðan kosningaþátttaka hjá okkur hefur almennt verið góð sem bendir til þess að lýðræðinu sé þannig séð nokkuð vel skipað hér hjá okkur.

Við hljótum samt að spyrja: Er það svo? Þá kemur þessi spurning sem er mjög erfitt að svara: Af hverju kýs fólk og hvers vegna kýs fólk eins og það gerir?

Kosningaþátttaka er að mínu mati ein og sér ekki alveg nóg til þess að geta sagt að lýðræðið sé í höfn og að hér sé gott og virkt lýðræði. Fyrsta skrefið er að lýðurinn taki þátt í kosningabaráttunni og taki ekki síst virkan þátt í umræðunni samkvæmt þess orðs merkingu. Upphaflega gerir lýðræði ráð fyrir því að fólkið, lýðurinn sem á að ráða, taki upplýsta og meðvitaða afstöðu og ákvörðun um það með hvaða hætti eigi að kjósa og leggja sitt á vogarskálarnar með því.

Á hverju byggir síðan þessi upplýsing sem er grundvöllur að öflugu og lifandi lýðræðisríki? Hún byggir á því væntanlega að fólkið sé vel upplýst og til þess höfum við m.a. skipað í flokka sem koma upplýsingum á framfæri. Inn í þessa ágætu þingsályktunartillögu hefði ég talið að væri mikilvægt að draga áhrif fjölmiðla á þróun lýðræðis vegna þess að hið upplýsta lýðræði byggir á því að fólk sé vel upplýst. Það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að umræðan hér á þingi einkennist e.t.v. ekki af hinni eiginlegu umræðu heldur meira svona eins og í fyrirsögnum. Hv. þingmenn tala í fyrirsögnum í þeirri von að fjölmiðlar festi þær. Það er ekki hin eiginlega umræða sem því miður fer allt of sjaldan fram í þingsölum. Umræðan og upplýsingin eru grundvöllur hins lifandi lýðræðis. Því hefði ég viljað beina til hv. framsögumanns hvort ekki væri við hæfi að bæta þeim þætti inn í tillöguna vegna þess að upplýsingadreifingin og hin eiginlega umræða er útgangspunkturinn í því að lýðræði geti orðið upplýst og virkt. (Gripið fram í: Þetta er í tillögugreininni.) Það vantar hins vegar, má segja, og ég minnist þess að í grein frá bandarískum fréttamannasamtökum var m.a. lýst áhyggjum yfir því að í bandarískum fjölmiðlum væri skemmtigildið farið að vera ráðandi, meira að segja í fréttaflutningi. Það tengist að sjálfsögðu hinni lýðræðislegu upplýsingu og upplýsingadreifingu en það eru þættir sem er mjög mikilvægt fyrir okkur, líka hér í heimspekilegri umræðu um lýðræði, að velta upp.

Fjölmiðlar eru oft nefndir fjórða valdið. Áhrif þeirra á störf þingsins og í samfélaginu eru mikil og þess vegna þarf að huga vel að þeim þætti.

Ég vil í annan stað nefna flokka. Þeir eru mikilvægir, þeir eru jú það form sem er ein af undirstöðum lýðræðis. Það vekur áhyggjur að umræða um hina pólitísku flokka er því miður allt of oft neikvæð. Við sjáum þróunina á Norðurlöndum þar sem virk þátttaka fólks í pólitískum flokkum fer minnkandi. Það má segja að hér sé sama tilhneiging og það er bara það samfélag sem við búum í og þar sem margt lifandi er að gerast. Það er margt sem togar í og fólk nennir ekki að verja tíma sínum í pólitískt skak. Þetta er umhugsunarefni og bendir til þess að lýðræðisríkið sé að veikjast hvað þetta varðar því að lýðræðið byggir jú á hinni virku þátttöku lýðsins.

Svo er hin eilífa umræða um fjármál flokkanna. Hún er á ákveðnum villigötum líka. Annars vegar heyrum við að þegar verið er að veita pólitísku flokkunum stuðning frá hinu opinbera hneykslast margir yfir því. Ég er ekki í þeirra hópi, ég tel eðlilegt að styrkja hina pólitísku flokka fjárhagslega vegna þess að þeir eru ákveðin undirstaða að lýðræðislegri umræðu hér. Þegar hins vegar fyrirtæki og einstaklingar styrkja flokka er það oft gert tortryggilegt. Auðvitað er ástæða til að bókhaldið sé opið og eðlilegt, eins og hér hefur verið fjallað um. Það er ákveðinn tvískinnungur í þessu. Það er gert neikvætt ef utanaðkomandi aðilar styrkja flokka og líka ef hið opinbera styrkir flokkana. Flokkarnir þurfa á fjármagni að halda til að starfa og einhvers staðar frá þarf þá það fjármagn að koma.

Hvað varðar þrískiptingu valdsins held ég að dómsvaldið sé í ágætum röðum hér en við þurfum að skoða hvernig. Framkvæmdarvaldið er mjög sterkt og hefur líklega verið alla tíð. Völd hafa verið að færast frá stjórnmálamönnum og út á markaðinn.

Ég sé að tími minn er að renna út þannig að eins og við var að búast næ ég ekki að ljúka máli mínu. Ég tel ástæðu til að skerpa á aðskilnaði, sérstaklega milli framkvæmdarvalds og löggjafarsamkomu, en ekki síst tel ég mikilvægt að leggja áherslu á að eiginleg umræða eigi sér stað, ekki síst upplýsingagjöfin þannig að fólk verði upplýst og meðvitað í pólitískri umræðu.