131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:46]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Milli mín og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra er sjaldan mikill ágreiningur og ég tel þetta alls ekki slæma leið. Aðalatriðið er að eyða þeirri tortryggni sem ég tel að hafi að mörgu leyti verið sköpuð í umræðum hér á Alþingi þar sem stundum hafa komið fram eins konar dylgjur — þá á ég við stjórnarandstöðuflokka allra tíma — í garð hinna flokkanna og vegna slíkra dylgna hafi þessi tortryggni orðið nokkuð lifandi í samfélaginu. Við vitum að líklega hafa flest stærstu fyrirtækin styrkt alla pólitísku flokkana.

Þessi umræða hefur líka, eins og ég nefndi áðan, stundum verið gerð tortryggileg þegar hið opinbera hefur veitt fjármuni til flokkanna. Og það er ekkert óeðlilegt þegar umræðan verður á þann hátt hér inni á þingi að þá taki sjónarmið fólks sem fylgist með þeirri umræðu nokkuð mið af því.

Það er eðlilegt að reyna að eyða þessari tortryggni og ég ítreka þá skoðun mína að það er mjög mikilvægt að hinir pólitísku flokkar fái fjárstuðning, bæði frá stuðningsmönnum sínum og fyrirtækjum sem vilja styðja þá. En það þarf þá að vera þannig að slíkt sé hafið yfir allar grunsemdir eða að við þurfum að haga tali okkar eins og stundum gerist hér. Ríkisendurskoðun getur verið prýðileg leið sem öryggisventill í þessu viðmiði.

Það hefur verið talað um að sumir flokkar, eins og ég hygg flokkur hv. formanns Samfylkingarinnar sem beindi til mín fyrirspurn áðan, gefi ekki upp gefendur sem eru yfir einhverri tiltekinni upphæð. En við vitum að það er mjög auðvelt að fara í kringum þetta, t.d. með því að lækka upphæðir. Þetta er á engan hátt einfalt mál.