131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:51]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Aðalatriðið er, virðulegur forseti, að stjórnmálaflokkar eru nauðsynlegir lýðræðisins vegna. Til þess að stjórnmálaflokkar geti starfað af krafti og öfluglega í þágu lýðræðis þurfa þeir á fjármagni að halda. Það má taka undir það sem forsvarsmenn sumra fyrirtækja hafa sagt opinberlega að þeir líti á það sem lýðræðislega skyldu sína að láta fé af hendi til stjórnmálaflokkanna, og þá til allra stjórnmálaflokka.

Það sama á við um einstaklinga sem vilja styðja þá og sama hugsun er að baki þess þegar Alþingi ákveður framlög til stjórnmálaflokkanna. Þetta er í þágu lýðræðis vegna þess að stjórnmálaflokkarnir eru ákveðinn grundvöllur lýðræðisins.

Við þurfum hins vegar að lyfta þessu yfir tortryggni og það mætti fara þá leið að Ríkisendurskoðun setti einhverjar reglur. Ugglaust væru einhverjir sem mundu sniðganga slíkar reglur, eins og Íslendingar eru frægir fyrir. En einhver viðmið þarf að hafa og ég ítreka að mér hugnast ágætlega sú hugmynd að nýta Ríkisendurskoðun sem slíkan öryggisventil.

Það er rétt sem hv. þm. nefndi að þetta nær ekki einungis til stjórnmálaflokka heldur einnig til þeirra rándýru prófkjöra sem voru haldin í aðdraganda síðustu kosninga. Það er vitað að einstaklingar þurfa að kosta milljónum króna til að tryggja sér öruggt sæti á lista og þá hafa menn einmitt verið að velta upp þessari spurningu: Eru einstakir þingmenn að láta kaupa sig? Ég trúi ekki að svo sé hjá neinum þeirra sem nú eru inni á þingi en það er ástæða til að líta einnig á þennan þátt. Hver er staða þingmanns sem í prófkjörsbaráttu sinni hefur hugsanlega þegið milljónir frá fyrirtæki, hver er staða viðkomandi þingmanns siðferðilega gagnvart slíku fyrirtæki þegar á hólminn kemur? Þetta eru mál sem okkur ber að fara yfir.