131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:08]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessari framkomnu þingsályktunartillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingar leggja fram um að rannsaka skuli þróun valds og lýðræðis hér á landi.

Í þessari vönduðu þingsályktunartillögu ásamt góðri greinargerð kemur margt fróðlegt fram sem ég hvet fólk til að renna yfir og glöggva sig á. Eitt af þeim atriðum er þrískipting ríkisvaldsins sem er að sjálfsögðu grundvöllur stjórnskipunar- og ríkisvalds okkar, bæði sem óskráð meginregla og sömuleiðis með beinum hætti í stjórnarskránni.

Eitt hefur komið mér á óvart sem nýjum þingmanni, búinn að vera á þingi í rúmlega eitt ár, og það er hvernig þessi þrískipting ríkisvalds er virt á hinu háa Alþingi. Svo virðist sem framkvæmdarvaldið hafi mun meiri völd en stjórnarskrárgjafarnir höfðu í huga þar sem löggjafarvaldið átti skýrt að liggja hjá Alþingi ásamt fjárveitingavaldinu. Hér má nefna í framhjáhlaupi notkun löggjafarvaldsins á hinum svokölluðu fjáraukalögum.

Það er annað sem hefur komið mér á óvart, hið mikla reglugerðarvald sem ráðherrar virðast hafa í samfélagi okkar. Nú er til umræðu í hv. allsherjarnefnd frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um skerðingu á rétti til gjafsóknar. Í þeirri umfjöllun fengum við að sjá drög að reglugerð sem átti að fylgja með þessari lagabreytingu sem er að einhverju leyti byggð á núverandi reglugerð hvað þetta varðar en þar kemur í ljós að nánast allar efnislegar takmarkanir hvað varðar gjafsókn í þessu tilviki er að finna í sjálfri reglugerðinni en ekki í lögunum. Í reglugerðinni koma fram þessar takmarkanir á gjafsókn. Þar er tekið fram tekjuviðmiðið og þar er beinlínis tekinn út einn flokkur mála sem er ekki gjaldgengur til að fá gjafsókn, þar eru t.d. meiðyrðamálin, en slíka takmörkun er ekki að finna í sjálfu frumvarpinu. Þess vegna fær þessi efnislegi þáttur enga þinglega meðferð. Þetta er nokkuð sem við sjáum víða.

Við sjáum einnig hvernig þetta þing starfar varðandi venjuleg þingmál hv. þingmanna. Hér virðist vera lenska að þingmál óbreyttra hv. þingmanna endi yfirleitt í nefnd og sofni þar. Í raun fá þá viðkomandi mál ekki þinglega meðferð.

Þetta er nokkuð sem kom mér mjög á óvart þegar ég settist nýr á þing. Ég vil rifja upp það sem umboðsmaður Alþingis sagði fyrir skemmstu um að þetta væri ekki góð þróun og gæti verið ein af skýringunum á því af hverju við búum við þetta fyrirspurnaflóð frá þingmönnum eins og margir hafa bent á. Það gæti verið vegna þess að hv. þingmenn sjá ekki aðra leið til að fá þinglega meðferð fyrir hugðarefni sín eða baráttumál en með fyrirspurnum. Í fyrirspurnatíma er tryggt að ráðherrann þurfi að svara þeim. Eins og fólk sér sem fylgist með eða les er enginn ráðherra viðstaddur þessa umræðu.

Við sjáum einnig að vald embættismanna í kerfi okkar er gríðarlegt. Ég hef orðið vitni að því sem nýr þingmaður að þingmenn stjórnarmeirihlutans vilja bera ákveðnar hugmyndir undir embættismannakerfið og eru mjög varfærnir í að breyta einhverju sem kemur frá ráðuneytinu. Sá er bara raunveruleikinn að flest þau lagafrumvörp sem eru samþykkt á hinu háa Alþingi eru frumvörp sem embættismenn semja nánast frá A til Ö. Ég held að það væri skynsamlegt að þetta væri að einhverju leyti öfugt, að frumkvæðið og efnislegar hugmyndir kæmu frá þingmönnunum sem hafa löggjafarvaldið og svo færu embættismennirnir yfir þær og mætu hvort allt stæðist og væri í lagi. Þetta er algjörlega öfugt eins og menn sjá þegar þeir kynnast þessum heimi.

Mig langar líka til að koma inn á annan þátt sem kom mér einnig á óvart sem nýjum þingmanni, áhrif þrýstihópa eða svokallaðra lobbíhópa. Lobbíismi eða þrýstingur á kjörna fulltrúa er miklu meiri en mig grunaði. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vera á varðbergi gagnvart. Þrýstihópar eiga að sjálfsögðu alveg rétt á sér og hagsmunahópar eiga rétt á að koma upplýsingum til kjörinna fulltrúa en þetta er eitthvað sem hefur verið að vaxa hafa menn bent á. Þetta er eitthvað sem við þurfum að passa okkur á. Við sjáum að ákveðin öflug félagasamtök og fyrirtæki hafa beinlínis launaða starfsmenn til að sjá um slíka hluti. Ein afleiðingin af þessu er að aðrir hópar sem hafa ekki tök á að hafa þessa launuðu starfsmenn, eða stunda öflugan lobbíisma, geta orðið út undan. Gott dæmi er ákveðnir hópar sjúklinga, jafnvel ákveðnar menntastofnanir sem hafa ekki tök á þessu eða vilja. Þetta er eitthvað sem við þurfum einnig að gæta okkar á þegar umræðan er um hvernig þróun valds og lýðræðis er hér á landi.

Ég held að skynsamlegt væri að Alþingi samþykkti þessa þingsályktunartillögu. Þessi rannsókn yrði afar gott yfirlit. Þetta er auðvitað viðamikið verk, enda gera flutningsmenn ráð fyrir rúmum tíma. Rannsókninni á að ljúka eigi síðar en 2008. Ég held að enginn mundi svo sem tapa á þessari skýrslu fyrir utan kostnaðinn við gerð hennar og þessar upplýsingar gætu leitt margt fróðlegt í ljós.

Í greinargerðinni er einnig komið inn á það hvernig vald hefur færst til hér á landi. Á sumum sviðum hefur vald stjórnmálamanna verið að minnka, svo sem á samkeppnismarkaði. Það má kannski minnast sérstaklega í því tilliti á fjármálamarkaðinn. Það er jákvætt. Stjórnmálamenn eiga ekki að vasast í fjármálamarkaðnum. Það á að vera liðin tíð að við séum að skipa hér uppgjafarstjórnmálamenn í bankastjórnir bankanna eða í Seðlabankann. Við eigum að sýna miklu meiri fagmennsku hvað þetta varðar en enn þann dag í dag erum við að sjá pólitískar skipanir á einstaklingum sem tengjast flokkunum með beinum hætti, t.d. í Seðlabankann. Síðasta skipun seðlabankastjóra bar ákveðinn keim af því.

Við eigum að leggja okkur fram um að reyna að minnka vald stjórnmálamanna þegar kemur að samkeppnismarkaðnum. Annar vinkill á þessu sem ég vil nefna er hvernig umhverfi okkar í landbúnaðinum er háttað. Landbúnaðinum er miðstýrt frá A til Ö og ítök stjórnmálamanna eru þar mikil. Þetta er eitt af þeim sviðum sem við eigum að ræða og reyna að losa úr viðjum stjórnmálamanna og miðstýringar en stjórnarmeirihlutinn hefur ekki viljað ljá máls á því. Síðasta vor voru fjörugar umræður hvað þetta varðar og hér kom hver sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum og varði það úrelta kerfi sem þar er að finna. En þetta er auðvitað angi af þeim sama meiði að við eigum að takmarka vald stjórnmálamanna á samkeppnismarkaði og ég tel að landbúnaðurinn sé slíkur markaður.

Tími minn er að klárast. Þetta er afskaplega jákvæð þingsályktunartillaga og greinargerðin er mjög viðamikið og gott plagg. Ég sé ekki ástæðu fyrir því að við ættum ekki að samþykkja hana. Ég tek undir það sem hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknar, talaði um. En hann talaði um tillöguna á jákvæðum nótum. Ég sé því enga fyrirstöðu fyrir því að við hér á þingi samþykkjum hana, bara helst fyrir jól.