131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:16]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það má segja að sú þingsályktunartillaga sem hér er flutt lúti í raun að því að finna svar við spurningunni: Hvar liggur valdið í íslensku samfélagi?

Til skamms tíma held ég að menn hafi verið sammála um að valdamiðjan í samfélaginu lægi á hinu háa Alþingi. Á síðasta áratug hafa orðið verulegar breytingar á samfélaginu sem hafa leitt til þess að valdið liggur ekki á hinu háa Alþingi í jafnríkum mæli og áður. Það hefur flust til stofnana framkvæmdarvaldsins en það hefur líka flust út á markaðinn. Markaðurinn hefur með auknu frelsi sótt sér eða sogað til sín vald sem áður var hér. Fjármálalegar og efnahagslegar ákvarðanir sem áður voru teknar í skjóli löggjafarvaldsins af handhöfum framkvæmdarvaldsins og vörðuðu mikilvæga þætti eins og vaxtamál og þau kjör sem íslensk alþýða og íslensk fyrirtæki bjuggu við, er núna með vissum hætti ráðið til lykta af lögmálum sem virka á hinum frjálsa markaði. Ég er síður en svo að halda því fram að það sé slæmt. Hins vegar skýtur það stoðum undir þá staðhæfingu hv. flutningsmanns Jóhönnu Sigurðardóttur að valdið sem áður var hér sé komið út til efnahagslegra blokka og að rannsaka þurfi með hvaða hætti það vald er notað og sömuleiðis, sem er önnur þungamiðja þessarar tillögu, að rannsaka tengsl hins pólitíska og efnahagslega valds.

Ég vil líka segja að þegar ég tala um að valdið hafi færst frá Alþingi á síðasta áratug þá er ég ekki síst að horfa til þeirrar þróunar sem ég hef séð gerast fyrir framan við mig og í kringum mig, bæði sem alþingismaður og ráðherra. Hún felst í því að eftir því sem hlutverk ríkisvaldsins verður flóknara, stofnanir þess burðugri og viðameiri og verkefni ríkisvaldsins stærri að vöxtum, er erfiðara um vik fyrir Alþingi að vasast í ákvörðunum sem áður voru stórar en eru ekki lengur stórar vegna þess hversu umfang verkefna er orðið mikið. Þetta hefur leitt til þess að valdið hefur með lögum verið flutt yfir til ráðuneyta, yfir til embættismannakerfis. Í vaxandi mæli er verið að veita stofnunum, þ.e. ráðuneytum framkvæmdarvaldsins, heimildir til þess að ráða til lykta mjög mikilvægum málum sem varða hag og heill allrar þjóðarinnar, alls samfélagsins, með reglugerðum.

Hverjir setja þær reglugerðir? Það er í vaxandi mæli hinn nafnlausi skari embættismanna sem stöðugt vex og þeim er stöðugt að fjölga. Þeir eru að verða ákaflega valdamikið afl í samfélaginu. Það eru sérfræðingar sem búa til reglugerðir sem aldrei koma í reynd til kasta Alþingis í sama mæli og lög, sem tóku jafnvel á ýmsum smáum tönnum í gangverki samfélagsins, gerðu áður. Þetta gerir það að verkum að það er ákaflega erfitt oft og tíðum fyrir löggjafann að veita það aðhald gagnvart framkvæmdarvaldinu sem þó er mælt fyrir um í stjórnarskránni. Þetta er einn angi af því valdaafsali sem hefur með sjálfviljugum hætti átt sér stað af hálfu Alþingis. Það er erfitt að snúa þessu við en ég held að þetta sé óheillavænlegt. Ég held að það sé ákaflega erfitt að snúa þessari þróun við vegna þess að þetta er partur af því sem gerist þegar þjóðfélagið verður flóknara og tæknivæddara og verkefnin stærri sem framkvæmdarvaldið þarf að ráða fram úr fyrir þegnana.

Önnur þróun hefur líka átt sér stað sem er ekki sjálfviljug af hálfu þingsins. Hún felst í því að framkvæmdarvaldið hefur orðið æ langtækara og stórtækara þegar það hefur verið að seilast eftir völdum. Við búum við dálítið sérstakt kerfi á Íslandi þar sem situr tveggja flokka ríkisstjórn sem hefur núna bráðum setið í hartnær áratug. Þessi ríkisstjórn hefur haft mjög sterkan þingmeirihluta, sterkan í þeirri merkingu að hún hefur haft mikið afl á Alþingi og ekki hikað við að neyta aflsmunar gagnvart stjórnarandstöðunni. Í vaxandi mæli hefur þetta leitt til þess að þingið og þingmenn stjórnarliðsins hafa staðið frammi fyrir ákvörðunum sem búið er að taka í sölum valdsins í ráðuneytunum. Það er enginn sem getur staðið upp og skekið sig framan í valdið og brotið af sér ok þess. Í vaxandi mæli sjáum við jafnvel að hugdettur og dyntir einstakra sterkra valdamanna leiða til þess að til verða frumvörp til laga sem varða grundvallarþætti í samfélaginu og þau eru lögð fram á hinu háa Alþingi. Jafnvel þó að í ljós komi að fáir, mér liggur við að segja enginn eins og í tilviki fjölmiðlafrumvarpsins sem kom fram á síðastliðnu vori, finni til einhverrar sérstakrar löngunar til þess að styðja slík mál eru þau eigi að síður keyrð hér fram í krafti offors og valdbeitingar.

Ég hef orðað það svo að þetta sé partur af því sem megi kalla ráðherraræði á Íslandi. Fjölmiðlalögin voru dæmi um það. Það var einn ráðherra, þáverandi forsætisráðherra, sem tók þá ákvörðun að það væri nauðsynlegt að stemma stigu við ákveðinni þróun í samfélaginu með þessum lögum. Það var nánast enginn annar í sölum Alþingis sem var honum sammála. En málið fór í gegn, vegna þess að hér ræður ríkjum það sem hefur jafnvel stundum á heldur ófegurra máli verið kallað „rassvasalýðræði“. Rassvasalýðræði má skýra þannig að það er einn ráðherra sem ræður öllu í ríkisstjórn. Þannig hefur það verið í töluvert mörg ár, til skamms tíma a.m.k. Þessi ráðherra hefur getað í gegnum ægivald sitt í ríkisstjórninni komið fram því sem hann vill og ríkisstjórnin síðan sem fulltrúi hans gagnvart stjórnarflokkunum hefur í reynd sett þá frammi fyrir ákvörðunum sem stjórnarflokkarnir hafa ekki getað breytt. Þar með hefur þingmeirihluti verið fyrir ákvörðunum sem jafnvel hafa ekki verið ræddar í þingflokkum stjórnarliðsins.

Annað dæmi um þetta, og ívið verra jafnvel en fjölmiðlamálið, er auðvitað Írak og afstaða okkar til Íraks. Þar var rassvasalýðræðið í sinni allra nöktustu og ljótustu mynd. Þar var það einn ráðherra sem tók ákvörðun og fékk annan ráðherra, formann hins stjórnarflokksins, til liðsinnis. Saman bundu þeir heila þjóð til stuðnings við innrás í Írak án þess að nokkur fengi að koma að ákvörðuninni. Ekki þingflokkar stjórnarinnar, ekki þingflokkar stjórnarandstöðunnar, ekki Alþingi, ekki utanríkismálanefnd, ekki þjóðin, enginn.

Þetta eru dæmi um það hvernig Alþingi í reynd lætur sér lynda valdaafsal til framkvæmdarvaldsins í þeim mæli að ekki er lengur hægt að sitja þegjandi hjá. Slíkri þróun verður að snúa við. Þessi tillaga er fyrsta skrefið til þess.