131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:48]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Sem einn flutningsmanna þessa máls fagna ég ummælum hv. þm. Jónínu Bjartmarz og tek undir að það er vel unnið undir forustu hv. 1. flutningsmanns Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hv. áður áminnstur þingmaður kom hér að eigin sögn fyrst og fremst upp til að gera athugasemdir við orð sem fallið hafa hér í umræðunni um Framsóknarflokkinn. Hún taldi að það væri ekki rétt sem haldið hefði verið fram að menn borguðu fyrst í Framsóknarflokkinn og fengju síðan einhverjar vegtyllur eða stöður. En þetta er ekki rétt hjá hv. þingmanni. Það var einmitt öfugt sem þetta var sagt. Unnur Stefánsdóttir frá Vorsabæ, fyrrverandi gjaldkeri, sagði þetta að gefnu tilefni, að það væri þannig að þegar menn hefðu fengið háar stöður þá borguðu þeir til baka. Þannig var þetta nú orðrétt, að borga til baka. Ég óska þess að hv. þingmaður skýri út þessi orð því að það var þannig sem þetta var.

Þegar maður lítur yfir ýmsa af þeim sem hafa verið fremstir á bekk hjá Framsóknarflokknum nú síðustu ár, það þarf ekki annað en að taka til menn úr þingflokki framsóknarmanna núna á síðasta kjörtímabili og kjörtímabilinu þar áður, þá sér maður að þeir sitja núna í góðum stöðum á vegum ríkisvaldsins margir hverjir. Þá er spurningin: Hvað borga þeir til baka?