131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Íslenska táknmálið.

277. mál
[18:46]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna viðbrögðum og viðhorfum hv. varaformanns menntamálanefndar, Dagnýjar Jónsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Ég tel mjög mikilvægt að hún spegli með þessum hætti viðhorf annars stjórnarflokkanna tveggja. Tel ég það gott. En sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins um mannréttindamál er náttúrlega ekki viðbrugðið að venju enda láta þeir ekki sjá sig í sölunum þegar slík grundvallarmál sem þetta eru til umræðu eins og lifir ágætlega í minningunni frá því í síðustu viku þegar við ræddum hliðstætt mál sem snertir sama samfélagshóp, þ.e. frumvarp hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur um textun sjónvarpsefnis. Þá var engin leið að kreista nokkurt einasta hljóð út úr Sjálfstæðisflokknum, þeim stóra í stjórnarsamstarfinu og fá einhverjar línur lagðar um það hvort ekki væri möguleiki á því að þessi réttlætismál yrðu afgreidd frá Alþingi Íslendinga í vetur. Þinginu væri mikill sómi að því, öllum flokkunum sem hér eru, ef menn færu einu sinni upp úr skotgröfum stjórnmálaátakanna hinna dags daglegu og afgreiddu slíkt mannréttindamál frá þinginu.

Virðulegi forseti. Ég tel að málið sem við ræðum núna sé grundvallarmál, mál sem pólitískar málamiðlanir ná ekki yfir. Þess vegna skora ég á Sjálfstæðisflokkinn að rífa sig upp úr farinu. Hvert einasta skipti sem réttindamál einhvers konar ber á góma flýja þeir í skjól. Það er ekki einu sinni sá bragur á þeim að þeir komi hér og tali gegn málunum. Þeir reyna að þegja þau einhvern veginn út af borðinu, svæfa þau síðan í nefnd þannig að þau komi aldrei aftur inn í þingsalina til neinnar endanlegrar afgreiðslu.

Þetta er mannréttindamál að mínu mati eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti. Með samþykkt þessa frumvarps til laga væru mannréttindi stórs hóps, ákveðins hóps í samfélaginu, þess hóps sem býr við heyrnarleysi eða heyrnarskerðingu hvers konar, viðurkennd. Hin ítarlega og góða greinargerð með frumvarpinu upplýsir okkur um sögu táknmálsins, stöðu heyrnarlausra og þá réttindaskrá sem til er lögð að verði að fylgja eftir þannig að staða þessa hóps sé viðunandi í samfélaginu. Þá er ég að meina jafnstöðu, jafnstöðu þess hóps sem býr við heyrnarleysi og heyrnarskerðingu á við okkur sem erum heyrandi til að taka fullan þátt í samfélaginu. Þetta mál er vissulega nátengt textunarfrumvarpinu sem er hin hliðin á krónunni, sem sagt aðgengi heyrnarlausra og heyrnarskertra að samfélaginu, samfélagi sem byggist meira og minna á miðlun upplýsinga og aðgengi og aðgangi okkar að þeim. Á meðan það er ekki í lög fest að sjónvarpsstöðvunum, eða efnisveitunum eins og Sjálfstæðisflokkurinn kallar þetta eftir að Síminn keypti Skjá 1, beri skylda til að texta íslenskt efni sem nokkur kostur er að texta með einhverjum eðlilegum undantekningum með beinar útsendingar o.s.frv. þá gerist ekkert af viti í þessu máli. Ríkisútvarpið sem stofnun hefur brugðist skyldu sinni. Ríkisútvarpið hefur brugðist í því að hafa forgöngu og sóma í þessu máli. Ríkisútvarpið hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að sýna þessum hópi sanngirni, réttlæti og þá virðingu sem hann á skylda með því að beita afli sínu til að texta allt það íslenska efni sem sýnt er og hefur verið unnið fyrir fram sem er töluvert efni.

Frægt er að þeir leggi í að texta Spaugstofuna og það er ágætt. En við það situr. Svo eru þættir sem teknir eru upp með ágætum fyrirvara eins og laugardagskvöld með Gísla Marteini. Þar var t.d. frægt viðtal um helgina við hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson. Þeim hefði verið í lófa lagið að texta þetta eins og hvert annað íslenskt efni sem unnið er fyrir fram.

Málið er í fyrsta lagi viðurkenning á mannréttindum, viðurkenning á því að íslenska táknmálið sé jafnsett tjáningarform í samskiptum á milli manna og íslensk tunga. Þess vegna er, eins og hér segir, með leyfi forseta:

„... óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir tala.“

Eins og staðan er í dag er fólki mismunað. Því er mismunað eftir því hvort það heyrir eða heyrir ekki og það er ósanngjarnt og það er óréttlátt að koma þannig fram við einhvern hóp í samfélaginu vegna þess að hann býr við fötlun. Það er einfaldlega ólöglegt, óeðlilegt og ósiðlegt. Þetta mundi allt breytast ef þetta frumvarp yrði að lögum í vetur, frumvarp sem færir það í lög að íslenska táknmálið hafi jafna stöðu á við íslenska tungu. Það er sanngjarnt og eðlilegt í samfélagi sem getur hvorki skákað í skjóli fávísi né fátæktar. Við bárum stöðuna í textunarmálunum saman við stöðuna í öðrum Evrópulöndum sem er mjög misjöfn. Hún er framúrskarandi í Bretlandi, ágæt víða annars staðar en hörmuleg á Íslandi og í Albaníu. En Albanía hefur sér það til málsbóta að vera fátækt samfélag sem er að rísa úr rústum ömurlegra tíma og mun sjálfsagt taka þessi mál til umræðu eins og önnur. En Ísland hefur ekkert þvílíkt sér til málsbóta. Ísland er eitt af ríkustu og upplýstustu samfélögum í heimi. Tölvueign, upplýsinganotkun, upplýsingaaðgengi og öll slík mál eiga sér vart sinn líka og á Íslandi. Þess þá heldur hlýtur það að brenna á okkur að mismuna ekki einum hópi í samfélaginu með þeim hætti að veita ekki fullt aðgengi eins og kostur er að þessu nútímaupplýsingasamfélagi. Þess vegna skora ég á Sjálfstæðisflokkinn, stóra flokkinn í ríkisstjórnarsamstarfinu, flokkinn sem því miður hefur farið með völdin sl. 14 ár, að koma og gefa einhvern ádrátt um það hvert viðhorf forustumanna hans sé. Ekki hefur nú legið á hv. formanni menntamálanefndar, Gunnari Birgissyni, að tjá sig þegar kemur að því að brjóta réttindi á kennurum. Hann var fyrstur hér til að reka áróður fyrir því að brotin yrðu mannréttindi á kennurum með því að setja lög á kjaradeilu þeirra. En það bólar ekkert á hv. þingmanninum þegar um er að ræða mannréttindamál, réttarbætur, sanngirnismál eins og við ræðum hér núna. Ég þreytist aldrei á því að skora á Sjálfstæðisflokkinn að taka þátt í umræðu um þessi mál. Alþingi Íslendinga, löggjafinn, á að hafa forgöngu að slíkum réttlætismálum, slíkum réttindabótum og í því eiga allir þingmenn allra flokka að sjálfsögðu að taka þátt. Ég vil aftur á móti hrósa þingmanni Framsóknarflokksins fyrir að taka þátt í umræðunni og lýsa afdráttarlausum stuðningi við málið. Menn gætu gert sér í hugarlund hver staðan væri í þessum málum, mannréttindamálum heyrnarlausra, heyrnarskertra og annarra hópa, ef Sjálfstæðisflokkurinn væri utan ríkisstjórnar. Þá væri aðeins öðruvísi um að litast í samfélagi okkar. Þá væri staðan í samfélaginu ögn réttlátari. Þá væri gengið fram af sanngirni við hópa og menn legðu sig í líma við það að veita fólki jafnstöðu, jöfn tækifæri og jafnt aðgengi að samfélaginu. Staðan eins og hún er í dag er hrein og klár mismunun eins og ég sagði áðan.

Þeir sem hafa rætt um málið á undan mér hafa komið inn á til að mynda stöðu táknmálsfræðinámsins. Hún er óþolandi. Hún er í takt við svo margt annað í íslenska menntakerfinu, gersamlega óþolandi, og fyrir því þurfti að róa lífróður fyrir ári síðan að námið hreinlega legðist ekki af í Háskóla Íslands. En það er illa að því staðið. Það eru allt of fáir túlkar menntaðir eins og staðan er núna og þar verður að taka mjög hressilega til hendinni eigi einhver árangur að nást í þessum málum og eigi að vera hægt að fylgja eftir lagabreytingu eins og þeirri sem við ræðum hér verði hún að veruleika sem eru samt ekki miklar líkur á fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn verður kominn út úr ríkisstjórn.

Hérna fylgir með nokkuð ítarleg réttindaskrá og gott yfirlit yfir hvað þurfi að breytast og hvaða réttindi heyrnarlausra og heyrnarskertra þurfi að fylgja slíku. Líkt og hv. þingmenn Mörður Árnason og Dagný Jónsdóttir reifuðu er það að sjálfsögðu mál sem rætt og unnið verður í framhaldinu, þ.e. hverju má breyta og bæta, hverju þarf að bæta við, hvort einhverju sé ofaukið þar o.s.frv. Það fylgir að sjálfsögðu útfærslunni.

Meginmálið er að við erum með frumvarp til laga þar sem um er það að ræða að bæta úr mismunun heyrnarlausra og heyrnarskerta í íslensku samfélagi, veita þeim sanngjarnan, réttlátan og eðlilegan aðgang að samfélaginu.

Ég vil í lokin, til að þeir sem eiga eftir að tala komist að áður en þingfundi lýkur, nota tækifærið og skora aftur á Alþingi Íslendinga og stjórnarflokkana að sjá sóma sinn í því að veita þessu máli brautargengi en ekki svæfa það svefninum langa í nefnd eftir þessa umræðu.