131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Svar við fyrirspurn.

[13:40]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir það að landbúnaðarnefnd eigi að fara ofan í saumana á þessu máli. Það fríar menn náttúrlega ekki ábyrgðinni á því sem gert er. Ég tel mjög mikilvægt að fara ofan í það hvort jafnræðis hafi verið gætt við embættistökuna í þessu máli, þ.e. ákvörðunina. Það er mjög mikilvægt og það er ekki nóg að drepa málum á dreif með því að vísa í landbúnaðarnefnd þingsins.

Allur rökstuðningur í þessu máli hefur verið mjög ómálefnalegur og það er mjög alvarlegt ef verið er að ganga á stjórnarskrárbundin atvinnuréttindi af sjálfri ríkisstjórn Íslands á mjög ómálefnalegan hátt. Þess vegna tel ég að það þurfi að fara rækilega ofan í samana á því.

Í rökstuðningi sínum fyrir synjun leyfisins vísar ráðherra í starfsemi rekstraraðila sem eru löngu hættir. Það er mjög undarlegt að vísa til rekstraraðila sem eru hættir, það eru komnir nýir rekstraraðilar að starfseminni. Þetta er svona álíka gáfulegt og að eftirlitsaðili eða sá sem veitti leyfi synjaði veitingamanni leyfis fyrir rekstri í ákveðnu húsnæði vegna þess að veitingamaðurinn sem var fyrir í húsnæðinu hefði ekki staðið sig. Þetta gengur náttúrlega ekki.

Síðan er í svari hæstv. ráðherra vísað til þakleka fjórum sinnum, þakleka sem var lagfærður fyrir tveimur árum. Mér finnst þetta mjög ómálefnalegt og það gefur greinilega til kynna að pottur sé brotinn í þessari embættisfærslu.