131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[13:46]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Herra forseti. Í síðustu viku, mitt í fréttafári um lát Arafats og alvarlega stöðu í kennaradeilunni, gat að líta frétt sem er tilefni þessarar umræðu hér, könnun IMG Gallups fyrir Alþjóðahúsið um afstöðu Íslendinga til fólks af erlendum uppruna.

Könnunin leiðir í ljós að frá árinu 1999 hefur þeim fækkað um 14% sem eru jákvæðir fyrir því að leyfa eigi fleiri útlendingum að vinna hérlendis. Frá árinu 1999 hefur þeim sem eru jákvæðir gagnvart því að Íslendingar eigi að taka við fleiri flóttamönnum fækkað um tæp 18%. Árið 1999 voru um 77% svarenda í könnun IMG Gallups sammála því að þeir sem flytja til Íslands eigi rétt á því að halda eigin siðum og venjum. Þeir sem eru sömu skoðunar árið 2004 eru hins vegar 64% svarenda sem þýðir að þeim hefur fækkað um 13% á fimm árum.

Þessi tíðindi ollu mér nokkrum áhyggjum því að þau virðast benda til þess að hér á landi sé minna umburðarlyndi og vaxandi fordómar gagnvart fólki af erlendum uppruna. Nú mundi einhver vilja segja að þetta ætti sér sínar skýringar þar sem fólki af erlendum uppruna hefur fjölgað hér mjög á síðustu árum, en eigum við að taka það sem sjálfsagðan hlut að fordómar aukist í kjölfar þess að útlendingar komi hingað til landsins? Ég segi nei, við eigum að takast á við vandann strax í upphafi. Það er ekki aðeins nauðsynlegt að stjórnvöld skapi sér skýra stefnu í málefnum innflytjenda, um aðgang þeirra að landinu og þær skyldur sem þeir takast á herðar við komuna í nýtt samfélag, sá þáttur er ekki síður mikilvægur sem snýr að íbúum landsins sem fyrir eru eftir að útlendingur hefur hingað komið og er sestur að. Þennan þátt þarf að halda vel utan um eigi fordómar og útlendingaandúð ekki að fá að vaxa hér óáreitt á næstu árum.

Ég tel það verulegt áhyggjuefni að sjá þessa þróun í viðhorfi Íslendinga og ég óttast að víða sé pottur brotinn í félagslegri aðlögun þeirra og samlögun. Vandamálið er enn ekki svo risavaxið að við getum ekki tekist á við það. Hlutfall erlendra ríkisborgara hér á landi af heildaríbúafjölda er um 3,5% á meðan hann er um 5% í Danmörku og 5,3% í Svíþjóð. Andstætt því sem er annars staðar á Norðurlöndunum er útlendingahópurinn hér virkur á vinnumarkaði á meðan þeir eru að miklu leyti hælisleitendur og flóttamenn annars staðar á Norðurlöndunum.

Hvernig má vera að fordómar grafi um sig gagnvart svo nýtum og virkum þjóðfélagsþegnum? Er kannski goðsögnin um að útlendingar steli störfum frá innfæddum í fullu gildi þrátt fyrir að flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið bendi til þess að innflytjendur búi til fleiri störf en þeir taki?

Herra forseti. Ég leita eftir stefnu félagsmálaráðuneytisins í þessum mikilvæga málaflokki, félagslegri aðlögun útlendinga, eða er þessi stefna kannski ekki til? Hún er a.m.k. illfinnanleg ef maður fer inn á vef ráðuneytisins á meðan slíkt er auðvelt að finna í stefnumótun hjá erlendum stjórnarráðum. Eru íslensk stjórnvöld kannski að fljóta sofandi að feigðarósi á meðan útlendingaandúðin fær að vaxa hér óáreitt?

Ég leyfi mér t.d. að halda því fram að hin umdeilda löggjöf um útlendinga sem ríkisstjórnin hefur sett sé til þess fallin að einangra þá og gera þá að sérhópi í samfélaginu. Það er ekki æskilegt. Ég nota hins vegar tækifærið til að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra að hann sé tilbúinn að leggja af vistarbandið svokallaða, það er mikilvægur þáttur sem þarf að laga og ber vott um skilning og áhuga á þessum viðkvæmu málum.

Það þarf að gera svo margt fleira. Fyrir það fyrsta vantar okkur upplýsingar um þróunina á síðustu árum. Félagsleg aðlögun er nefnilega mikilvæg leið til að koma í veg fyrir vandamálin áður en þau verða ofvaxin. Við þurfum að gera útlendingum kleift að taka þátt í samfélaginu með því að læra flókna tungumálið okkar og það er ekki óeðlilegt að stjórnvöld kosti þar til verulegum fjármunum líka, a.m.k. einhverjum fjármunum.

Eins og ég hef áður nefnt er útlendingahópurinn hér á landi mjög virkur á vinnumarkaði en ég óttast að þeir fái ekki nægilegar upplýsingar um réttarstöðu sína og skyldur. Þessi þáttur virðist vera í skötulíki, skyldan er á herðum atvinnurekenda og svo virðist sem henni sé ekki sinnt nema í undantekningartilvikum.

Það er líka mjög mikilvægt að Íslendingar séu fræddir um það nýja umhverfi sem fjölmenningarsamfélagið býður upp á. Við berum nefnilega ábyrgð á því viðhorfi sem birtist í könnun IMG Gallups og stjórnvöld þurfa að reyna að grafast fyrir um þessi viðhorf og orsakir þeirra. Ég tel mjög mikilvægt að gerð verði ítarleg rannsókn á aðstæðum innflytjenda hér á landi og viðhorfum Íslendinga til þeirra. Slík rannsókn gæti varpað ljósi á þróunina og gert okkur kleift að taka vitrænar ákvarðanir um næstu skref og stefnumótun til framtíðar.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt spyr ég hæstv. ráðherra:

Hver er stefna ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar um félagslega aðlögun innflytjenda?

Telur ráðherra ástæðu til að bregðast sérstaklega við þeirri þróun sem birtist í umræddri könnun?

Er ráðherra tilbúinn að leggja sitt af mörkum til að hægt verði að rannsaka hagi innflytjenda á Íslandi, viðhorf innfæddra til þeirra og forsendur þeirra viðhorfa?

Telur ráðherra nægilega vel staðið að upplýsingagjöf til útlendinga um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og um íslenskt samfélag almennt?