131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[13:51]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég get ekki neitað því að niðurstöður skoðanakönnunar Gallups á viðhorfi Íslendinga til útlendinga, framandi menningar og flóttamanna komu mér á óvart. Það sem auðvitað er mest sláandi er hversu mjög þeim hefur fækkað sem eru jákvæðir gagnvart því að leyfa útlendingum að vinna hérlendis. Samkvæmt könnuninni hefur þeim fækkað um 14%. Einnig hefur þeim fækkað verulega sem eru jákvæðir gagnvart móttöku flóttamanna. Árið 1999 voru þeir sem voru jákvæðir 45% svarenda en eru nú 27,5%.

Það er verulegt umhugsunarefni hvað hefur valdið þessari miklu viðhorfsbreytingu á einungis fimm árum. Íslendingar hafa allar forsendur til að vera jákvæðari gagnvart útlendingum og innflytjendum en aðrar þjóðir. Sennilega eiga fáar þjóðir jafnmikið undir hvers kyns erlendum samskiptum og við. Þetta gildir ekki síst hvað varðar verslun og viðskipti en einnig að því er varðar tengsl á sviði menningar, lista og vísinda.

Ég held að leitun sé að ríki þar sem það er jafnalgengt að fólk sæki framhaldsmenntun til annarra landa og héðan frá Íslandi. Kunnátta og þekking á samfélögum og staðháttum erlendis hefur vafalaust auðveldað mikla útrás íslenskra fyrirtækja í útlöndum. Sama gildir um þann fjölda útlendinga sem hingað hefur flust. Þeir hafa lagt sitt af mörkum til að auka fjölbreytni mannlífs og menningar hér á landi og án efa orðið til þess að kynna Ísland í heimalöndunum og komið á margvíslegum tengslum sem orðið hafa öllum til hagsbóta. Ekki síst hafa þeir lagt sitt af mörkum til atvinnulífisins.

Síðastliðinn áratug hefur fjöldi útlendinga á Íslandi tvöfaldast og eru þeir nú rúmlega 10 þús. talsins. Til viðbótar eru um þúsund einstaklingar sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt en eiga rætur sínar að rekja til annarra landa. Skýringin á þessari miklu fjölgun er eftirspurn eftir vinnuafli, einkum frá árinu 1998.

Í lok síðasta árs voru alls 3,6% mannfjöldans á Íslandi með erlent ríkisfang en í Danmörku var þetta hlutfall um 5%, um 2% í Finnlandi, rúmlega 4% í Noregi og 5% í Svíþjóð.

Hæstv. forseti. Ein af frumforsendum fyrir útgáfu atvinnuleyfis er að atvinna sé tryggð áður en útlendingur kemur til landsins. Þetta hefur tryggt það að atvinnuþátttaka einstaklinga með erlent ríkisfang hér á landi er mjög há eða um 93% árið 2000 og atvinnuleysi lítið. Í samanburði við önnur Norðurlönd var atvinnuþátttaka meðal innflytjenda í Danmörku um 50%, tæp 60% í Finnlandi, 50% í Noregi og 50% í Svíþjóð.

Í september sl. var atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara heldur minna en meðal innfæddra Íslendinga, eða 2,4% á móti 2,6%. Til samanburðar má nefna að atvinnuleysi meðal útlendinga með erlent ríkisfang var 12,7% í Danmörku, 29% í Finnlandi, 10% í Noregi og tæp 14% í Svíþjóð.

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld unnið með ýmsum hætti að umbótum á málefnum innflytjenda og útlendinga sem hér eru staddir. Árið 2001 var opnað Fjölmenningarsetur á Ísafirði. Starfsemi Alþjóðahúss í núverandi mynd hófst í desember 2001. Það er óhætt að segja að á þeim tíma sem Fjölmenningarsetur og Alþjóðahús hafa starfað hefur þörfin fyrir þjónustuna sífellt verið að koma betur í ljós við miðlun upplýsinga um íslenskt samfélag og réttindi og skyldur.

Í félagsmálaráðuneytinu liggja nú fyrir drög að tillögum um heildarskipulag á þjónustu við innflytjendur. Sérstökum hópi hefur verið falið að útfæra tillögurnar og fyrir áramót á ég von á niðurstöðum og tillögum um hvernig málefnum innflytjenda verði best fyrir komið í stjórnsýslunni til framtíðar. Ég vil geta þess að hópurinn beinir sérstaklega sjónum sínum að því hvernig best megi standa að upplýsingaþjónustu við útlendinga, m.a. að því er varðar réttindi og skyldur á vinnumarkaði og um íslenskt samfélag almennt.

Þá vil ég geta þess að sú skipan mála að útgáfa atvinnu- og dvalarleyfa fyrir útlendinga heyri til verksviðs tveggja ráðuneyta, þ.e. dómsmálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis, hefur lengi sætt ákveðinni gangrýni. Þessi skipan hefur leitt til þess að tvær stofnanir, Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun, hafa fjallað um leyfisumsóknir vegna atvinnu og dvalar þriðju ríkja borgara hér á landi. Ágætt samráð hefur verið milli þessara tveggja stofnana en óhjákvæmilega hefur afgreiðslan einkennst af því að tvær stofnanir annast útgáfu leyfanna. Við dómsmálaráðherra höfum nú falið samráðsnefnd um atvinnuréttindi útlendinga að kanna hvort ekki geti farið betur að fella leyfisveitingar vegna dvalar og atvinnu útlendinga hér á landi undir eitt ráðuneyti í því skyni að einfalda stjórnsýsluna í þessum málaflokki.

Hæstv. forseti. Með hliðsjón af framangreindu má vera ljóst að stefna félagsmálaráðuneytisins og ríkisstjórnar er sú að gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðlögun innflytjenda gangi sem best fyrir sig og að íslenskt samfélag komi til móts við þarfir þeirra svo sem kostur er. Niðurstaða skoðanakönnunar Gallups fyrir Alþjóðahúsið gefur tilefni til að hraða þeirri vinnu sem nú er í gangi á vegum stjórnvalda og, eins og ég gat um hér fyrr, að marka málaflokknum ákveðinn sess í stjórnsýslunni.