131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:08]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er sannarlega ástæða til að hafa áhyggjur af neikvæðara viðhorfi landsmanna gagnvart innflytjendum. Skilyrði fyrir því að íbúar af erlendum uppruna verði virkir þátttakendur í íslensku samfélagi er að þeim sé raunverulega gert kleift að læra tungumálið og kynnast grunnþáttum í menningu okkar. Þannig skapast eðlilegur grunnur fyrir öll samskipti og gagnkvæma virðingu. Frumvarp okkar Vinstri grænna um gjaldfrjálsan leikskóla fyrir alla er einmitt liður í því.

Þá er mikilvægt að erlent fólk , hvort sem það vinnur hér í lengri eða skemmri tíma, búi fyllilega við sömu kjör, laun, velferðarþjónustu og allan aðbúnað eins og um innfædda væri að ræða og er þar kannski pottur brotinn í stefnu stjórnvalda. Stórfelldur innflutningur á erlendu fólki til tímabundinna verkefna setur í auknum mæli mark sitt á íslenskt atvinnulíf. Erlendar starfsmannaleigur koma hingað með fjölda verkamanna og erfitt reynist að fylgja því eftir að þetta fólk búi við jafnrétti hvað varðar aðbúnað og kjör. Er það tryggt að þetta fólk búi við sömu kjör og laun og annan aðbúnað eins og um íslenskt starfsfólk væri að ræða?

Sá orðrómur og sú umræða að fólk sé flutt inn tímabundið til að halda niðri launum og kjörum á íslenskum vinnumarkaði getur haft gríðarlega neikvæð áhrif og þar hvílir ábyrgðin ekki hvað síst á atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar sem krefst þess að flutt sé inn erlent fólk tímabundið til ákveðinna verka. Og ekki síður á verkalýðshreyfingin líka að fylgja eftir að kaup og kjör og annar aðbúnaður sé með þeim hætti sem við viljum að sé, en þarna finnst mörgum linlega að málum staðið.

Það er síður en svo ástæða til að amast við því fólki sem kemur hingað tímabundið til að sjá sér og sínum farborða en það verður þá að vera fullkomlega tryggt að fólkið búi við góð laun, aðbúnað og opinbera þjónustu eins og um Íslendinga sé að ræða.