131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:15]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Tiltölulega stutt saga íslensku þjóðarinnar sýnir að náin tengsl hennar við útlendinga hafi hreinlega bjargað henni frá stöðnun og úrkynjun. Í annan stað má nefna, eins og hér hefur komið fram, að erlent vinnuafl hefur að mörgu leyti haldið íslensku atvinnulífi á floti. Útlendingar gegna störfum sem Íslendingar hafa einfaldlega ekki viljað. Í þriðja lagi ber að nefna að Íslendingar hafa á síðustu árum og áratugum ferðast afskaplega mikið um heiminn, kynnst ólíkum siðum í námi og störfum og flytja með sér heim nýja strauma.

Af þessum þremur þáttum má augljóslega sjá að erlend samskipti þjóðarinnar eru afskaplega jákvæð og skipta þjóðarheill máli. Þess vegna skýtur það skökku við ef andúð gagnvart nýbúum, gagnvart útlendingum, er að aukast í samfélaginu. Ef við höfum áhyggjur af því í dag þá er vert að hafa enn frekari áhyggjur ef verulegt atvinnuleysi yrði hér á landi. Þá fyrst væri ástæða til að hafa áhyggjur.

En það ber að fagna því sem vel er gert, eins og fram kom í svari hæstv. félagsmálaráðherra, starfsemi Alþjóðahúss og aðrar aðgerðir sem þar voru nefndar. En betur má ef duga skal. Ég trúi ekki að um það sé pólitískur ágreiningur. Við þurfum að efla vitund og fræðslu um ólíka siði og menningu ólíkra þjóða, umburðarlyndi, gagnkvæma virðingu fyrir ólíkri menningu og siðum. Það er grunnur að friði í alþjóðasamfélaginu og grunnur að því að við viljum láta taka okkur alvarlega sem þjóð í alþjóðasamfélagi.