131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:17]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og háttvirtum þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu.

Eiginlega má segja að tvennt hafi komið fram í umræðunni. Annars vegar hefur afskaplega lítil stefna eða nánast engin verið í þessum málaflokki sem snýr að félagslegri aðlögun útlendinga. Hins vegar ber hæstv. félagsmálaráðherra jákvæð tíðindi í þennan sal. Hann er virkilega að gera eitthvað í þessum málum. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem hann gaf, um áhuga hans á þessum málaflokki og það sem hann er að gera með að einfalda stjórnsýsluna og kafa ofan í þessi mál. Mér finnast það vera góð tíðindi úr ríkisstjórninni. Mér hefur oftar þótt sem þaðan bærust aðrir straumar þegar málefni útlendinga ber á góma.

Ég vil því fagna því sem hæstv. ráðherra er að gera og hvetja hann til að halda áfram á þessari braut og sjá til þess að þessi málaflokkur standi undir nafni.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki öllum spurningum mínum. Ég vil því inna hann enn eftir því hvort ekki sé ástæða til að horfa sérstaklega á rannsóknarþáttinn í þessu, að kafað verði sérstaklega ofan í og reynt að grafast fyrir um hvað valdi þessari viðhorfsbreytingu þannig að við getum í raun mótað stefnu til framtíðar á grundvelli slíkrar rannsóknar.

Svo vil ég líka nefna, af því að það hefur nokkrum sinnum verið nefnt til sögunnar, Alþjóðahúsið og fjölmenningarsetur. Það væri ekki vitlaust hjá hæstv. ríkisstjórn að leggja kannski einhverja fjármuni í starfsemi Alþjóðahússins. Það er náttúrlega óviðunandi að ríkisvaldið skuli ekki leggja krónu í þessa mikilvægu starfsemi sem hefur verið mjög blómleg og fer vaxandi. En hún er alfarið borin uppi af sveitarfélögum, Rauða krossinum og fleiri aðilum.

Ég held að það mætti kannski gauka því að hæstv. ráðherra við þessa umræðu. Það mundi skipta máli. En annars vil ég þakka fyrir umræðuna og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.