131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[14:46]

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Málefni Íraks hafa margoft verið til umræðu hér á Alþingi. Í tillögu sem hér er til umræðu fara flutningsmenn fram á að Ísland dragi til baka stuðning sinn við innrásina í Írak og taki sig af lista viljugra þjóða eins og þeir nefna svo. Þá fara þeir fram á rannsókn á ástæðum þess að íslensk stjórnvöld lýstu yfir stuðningi við aðgerðirnar.

Hæstv. forseti. Nú er úr vöndu að ráða. Háttvirtur 2. flutningsmaður þessarar tillögu, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fór fram á það með bréfi til utanríkismálanefndar þann 20. september sl. að utanríkismálanefnd tæki málið til athugunar, m.a. að upplýst yrði um allan aðdraganda þess að ríkisstjórnin ákvað að styðja aðgerðirnar gegn Írak. Jafnframt var farið fram á að helstu gögn yrðu útveguð. Utanríkismálanefnd hefur tekið málið fyrir samkvæmt beiðni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og málið er til meðferðar í nefndinni. Lagt hefur verið í töluverða vinnu við að útvega gögn og upplýsingar sem beðið hefur verið um. Þá hafa gestir verið kvaddir fyrir nefndina til að ræða málið. Athugun nefndarinnar er ekki lokið enn þá og því erfitt að ræða einstök efnisatriði Íraksmálsins nú. Nefndin mun hins vegar fá þessa tillögu til meðferðar eftir þessa umræðu og væntanlega verður þetta skoðað í samhengi.

Hæstv. forseti. Uppbygging lýðræðis og breyting á stjórnarháttum í Írak er nauðsynlegt til að tryggja framtíð írakskra borgara í samfélagi þjóðanna. Endurreisnarstarfið í Írak byggir á ályktun öryggisráðsins. Því verður að halda áfram og er langt frá því lokið.

Um ástæður þess að bandamenn ákváðu að ráðast inn í Írak þarf ekki að fjölyrða hér. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafði gefið Írak tækifæri til að sýna fram á að öllum gereyðingarvopnum hefði verið eytt, en Írak virti það að vettugi. Ef Írak hefði hins vegar unnið með Sameinuðu þjóðunum og þar með alþjóðasamfélaginu, í stað þess að vinna gegn þeim, væru málin trúlega í allt öðrum farvegi í dag.

Ályktanir Sameinuðu þjóðanna um afvopnun Íraks voru í fullu gildi fyrir innrásina og það mátti öllum vera ljóst að aðgerðum var hótað ef ekki væri orðið við þeim ályktunum. Saddam Hussein þráaðist við í áraraðir og varð ekki við ályktunum öryggisráðsins varðandi gereyðingarvopn. Mótstaða hans varð til þess að mjög erfitt var að treysta nokkrum upplýsingum sem frá írökskum stjórnvöldum komu.

Íslensk stjórnvöld hafa reynt að gera það sem í þeirra valdi stendur til að uppræta hryðjuverkastarfsemi í heiminum. Við getum ekki setið hjá og látið sem ekkert sé. Það þarf einfaldlega að taka afstöðu í þessum málum. Það er alkunna að Saddam Hussein og ógnarstjórn hans í Bagdad voru hættuleg heimsfriðnum, að ekki sé minnst á hvernig hún fór með eigin þegna. Engin stefnubreyting hefur orðið af hálfu íslenskra stjórnvalda í afstöðu til hættunnar sem stafaði af ógnarstjórninni í Írak. Ákvörðun um stuðning við aðgerðirnar var tekin í ljósi ályktana Sameinuðu þjóðanna sem voru í gildi og á grundvelli upplýsinga sem voru fengnar frá bandamönnum okkar. Við treystum því mati bandamanna okkar á þeirri vá sem að steðjaði og við erum ekki í stakk búin til að vefengja trúverðugar upplýsingar, enda höfum við ekki yfir neinni leyniþjónustu að ráða.

Tillaga um að taka til baka ákvörðun um stuðning er einkennileg. Innrásinni er lokið og endurreisnarstarfið er hafið, þótt átökum sé ekki lokið, enda hafa atburðir síðustu daga við Falluja komið mönnum í opna skjöldu. Það er óumdeilt að enginn vill stríð. Átökin í Falluja eru skelfileg og koma verst niður á óbreyttum borgurum, eins og stríðsátök gera jafnan. Það er hins vegar greinilegt að ákveðinn hópur manna í Írak vill ekki gefa íröksku þjóðinni frelsi og einhverja framtíðarvon.

Hæstv. forseti. Hvaða þýðingu hefur stuðningur íslenskra stjórnvalda við aðgerðirnar gegn Írak? Því er erfitt að svara, en líklegt má þó telja að þjóðir sem studdu innrásina beri kannski meiri siðferðilega ábyrgð á að leggja uppbyggingarstarfinu lið. Ekki viljum við draga til baka þá siðferðilegu skuldbindingu okkar, er það? Ef eitthvað er slæmt fyrir íröksku þjóðinna þá er það ístöðuleysi.

Bráðabirgðastjórnarinnar í Írak bíða erfið verkefni, að koma á lýðræðislegri stjórnskipan í landinu og fyrirhugað er að halda þingkosningar á næstunni. En til þess þarf bráðabirgðastjórnin í Írak fullan stuðning alþjóðasamfélagsins.

Ég held að það færi betur að einbeita sér að mannúðar- og uppbyggingarstarfi í Írak og það hafa íslensk stjórnvöld einmitt verið að gera. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir stórauknum framlögum til slíkra verkefna. Í umræðum um utanríkismál hér í síðustu viku gat hæstv. utanríkisráðherra þess m.a. að verið væri að kanna hvernig Ísland gæti tekið þátt í þjálfun írakskra öryggissveita á vegum NATO í Írak. Þá ber Íslandi líka að sinna endurreisnarstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Hæstv. forseti. Aðalmálið er þetta: Harðstjóranum Saddam Hussein hefur verið komið frá völdum og uppbyggingarstarfið í Írak er hafið. Deilur um aðdraganda innrásarinnar og stuðningur íslenskra stjórnvalda við bandamenn okkar munu ekki skila íröksku þjóðinni neinu.