131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[14:53]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Við erum svo heppin að hafa formann utanríkisnefndar, hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur, hér í salnum og hún getur skýrt fyrir okkur eitt af því sem spurt er um í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu:

E-liðurinn. Hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum 24. gr. þingskapalaga?

Hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert?

Ef þingmaðurinn getur ekki upplýst um það, þá hlýtur hann að geta upplýst okkur um þetta hér:

Var haft samband við formann utanríkismálanefndar áður en þessi ákvörðun var tekin?

Var ákvörðunin borin undir formanninn?

Hver gerði það og hver voru svör formannsins?

Þá í því tilviki: Hvers vegna boðaði formaðurinn ekki fund í nefndinni skv. 24. gr. þingskapalaga?