131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:00]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé mig knúna til að hrekja þrennt sem fram kom í ræðu hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur. Hún sagði m.a., herra forseti, að öllum hefði mátt vera ljóst að samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fylgdu hótanir um vopnavald.

Það er ekki rétt, herra forseti, það er ekki rétt. Um það snerist deilan innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna var árásin gerð án þess að fá samþykki öryggisráðsins.

Svo sagði háttvirtur þingmaður að alkunna hefði verið að af Saddam Hussein steðjaði hætta við heimsfriðinn — við heimsfriðinn, hvorki meira né minna, herra forseti. Þetta er ekki heldur rétt og hefur verið hrakið um allan heim. Það voru engin gereyðingarvopn í Írak sem heiminum stóð ógn af.

Í þriðja lagi sagði hv. þm., herra forseti, að það yrði að setja þetta mál í samhengi við baráttuna við alþjóðlega hryðjuverkahópa.

Ja, heyr á endemi. Það hefur verið hrakið, m.a. fyrir Bandaríkjaþingi og breska þinginu að nokkur tengsl hafi verið á milli Saddams Husseins og al Qaeda, sem þó var mikið talað um í aðdraganda stríðsins. Þetta er allt rangt, herra forseti.