131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:07]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu 3. mál þingsins. Það er ömurlegt að eftir allan þennan tíma skuli starfandi utanríkisráðherra ekki geta verið viðstaddur umræðuna og tekið þátt í henni. Það er athyglisvert fyrir okkur að sjá að af hálfu flokks utanríkisráðherra skuli formaður utanríkismálanefndar ein vera í salnum. Það er svo sem ekki eins og þingmenn flykkist upp til að ræða þetta stóra mál sem þeir virðast hafa svo mikla sannfæringu fyrir.

Ég ætla líka að segja, virðulegi forseti, að það er fráleitt af formanni utanríkismálanefndar, sem ég virði þó fyrir að reyna að ræða við þingmenn, skuli gefa það til kynna að þingmönnum í þessum sal sé kunnugt um forsendurnar fyrir aðild Íslands að innrásinni í Írak. Það hefur aldrei verið upplýst eða komið fram hvaða gögn eða upplýsingar lágu fyrir þegar ákvörðunin var tekin þennan örlagaríka dag. Hins vegar er búið að skaffa helling af gögnum og skýrslum um ástandið og ályktanir manna hér og þar úti í heimi. Það er bara allt önnur Ella.

Forseti. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, dró feikilega vel fram nýja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Það er óbætanlegt tjón fyrir Ísland að hafa stutt innrásina í blóra við vilja Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefur gjörbreytt stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu og innan Sameinuðu þjóðanna að mínu mati. Þetta kallar á stefnumörkun af Íslands hálfu um hvernig Ísland muni halda á umboði sínu ef við fáum sæti í öryggisráðinu, sem Ísland sækist eftir.

Það er líka athyglisvert, virðulegi forseti, að í flestum löndum hafa farið fram miklar rannsóknir á innrásinni í Írak, á því hvaða upplýsingar hafi legið fyrir, hverjar hafi verið réttar og hverjar ekki. Leiðtogar hafa beðist afsökunar á að óljósar upplýsingar hafi verið teknar alvarlega. En ekki hér, ekki hér á Íslandi. Enginn biður afsökunar á neinu. Allt er svo rétt og gott sem hér var gert, jafnfráleit og ákvörðunin var sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.

Ég ætla að víkja aðeins að ræðu hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar í utanríkismálaumræðum á Alþingi fyrir fáeinum dögum. Á blaðsíðu 3 er það rakið sem gerðist fyrir einu og hálfu ári þegar Írak var frelsað undan oki Saddams Husseins, að mikið hefði áunnist í endurreisnarstarfi þrátt fyrir ákafar tilraunir ofbeldisafla til að vinna gegn því og þetta hafi verið gert á grundvelli ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1546, að átökin í Írak snúist í raun ekki um dvöl erlends herliðs heldur hvort komið verði á lýðræðislegri stjórnskipan.

Þessi kafli í ræðu hæstv. utanríkisráðherra leiðir hugann að því sem svo oft hefur verið fjallað um, þ.e. um hálfsannleik í máli stjórnmálamanna. Svo ég kryfji aðeins þennan kafla í ræðunni þá var ekki farið þar inn, eins og m.a. hefur komið fram í orðaskiptum áðan, til að frelsa Íraka undan oki Saddams Husseins. Nei, það var af því að þar áttu að vera gjöreyðingarvopn. Að baki lá auðvitað olían og allir þeir hagsmunir sem í henni felast. Það var ekki gert til að fella Saddam Hussein úr stóli heldur vegna staðhæfinga um gjöreyðingarvopn.

Varðandi endurreisnarstarfið þá hefur verið hrikalegt stríðsástand, ekki síst í Falluja, eins og Össur Skarphéðinsson lýsti ágætlega áðan. Mannfallið er gífurlegt, bandarískir og breskir hermenn, eru sendir unnvörpum heim í kistu, fyrir utan mannfall saklausra borgara sem hér hefur komið til tals. Og svo er sagt, óljóst að sjálfsögðu, að þetta hafi verið gert á grundvelli ályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1546, sem feli íröksku bráðabirgðastjórninni m.a. að ákveða þörf á aðstoð fjölþjóðlegs herliðs og gefið til kynna að Sameinuðu þjóðirnar hafi stutt þessa innrás, sem er alls ekki rétt.

Þann 16. september á þessu ári, kemur fram í fréttum BBC að Kofi Annan telji að innrásin í Írak hafi verið ólögleg vegna þess að ákvörðunin var ekki tekin af öryggisráðinu heldur af innrásaröflunum. Svo einfalt er það mál. Kofi Annan, æðsti maður Sameinuðu þjóðanna, hefur gefið um það yfirlýsingu í fréttum á BBC. Svo tala menn eins og þetta hafi verið allt í lagi, eins og um það hafi legið fyrir ákvörðun að steypa þyrfti Saddam Hussein af stóli. Síðan er lauslega gefið til kynna að ályktanir Sameinuðu þjóðanna, sem eru um allt annað, hafi verið stuðningur við það.

Íslensk stjórnvöld eru sem fyrr þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að ráðast inn í Írak. Það er með ólíkindum að hægt sé að tala um að vegna almennra grunsemda í garð Íraksstjórnar um framleiðslu gereyðingarvopna hafi þetta allt verið réttlætanlegt.

Ástandið í Miðausturlöndum hefur verið hrikalegt. Stríðið kom í kjölfar viðskiptabanns sem fór illa með írakska borgara, börn, aldraða, sjúka og alla þá sem skorti aðbúnað og lífsnauðsynleg lyf. Það er alvarlegt umhugsunarefni að því sé haldið blákalt fram að við verðum að vera áfram á lista hinna viljugu af því að nú séum við með í uppbyggingunni. Þetta er fráleitt. Við getum verið með í uppbyggingarstarfi hvar sem er á okkar eigin forsendum og hvenær sem er. Við þurfum ekki þær forsendur að hafa verið þátttakendur í innrásinni.

Eftir því sem ég best veit var gerð sérstök samþykkt ríkisstjórnarinnar, 8. apríl fyrir ári, um 300 millj. kr. framlag til uppbyggingar í Írak. Ég kannast ekki við að nýjar samþykktir hafi verið gerðar. Það hefði verið full ástæða til þess við umræðuna nú að kalla eftir því hvað lagt hafi verið til á þessu ári, hvað eigi að leggja til á næsta ári og hver sé ábyrgð okkar sem þurfum að vera á lista hinna 30 viljugu til að geta haldið áfram að taka þátt í uppbyggingarstarfi. Þjóð sem studdi innrás ber mikla ábyrgð og ætti vitanlega að veita gífurlegan stuðning til mannúðarmála í landinu.

Virðulegi forseti. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur í umræðu um Miðausturlönd, m.a. Írak, ítrekað dregið það fram hve miklu máli skiptir að berjast gegn fátækt og taka þátt í mannúðarsamvinnunni. Vonleysi, örbirgð og fátækt eru jarðvegur fyrir þá sem draga ungmenni með sér út í hryðjuverk og sjálfmorðsárásir. Þar liggur ábyrgð okkar á Vesturlöndum, að hjálpa þessum ríkjum, gefa flóttamönnum þjóðerni og styðja lýðræðislegar aðgerðir en taka ekki þátt í innrásum.