131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:31]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að þegar sagan verður skrifuð í náinni framtíð muni 20. mars 2003 verða lýst sem svörtum degi í sögu Íslands, vegna þess að þann dag bárust okkur fréttir af því að íslenska ríkisstjórnin ætlaði í fyrsta sinn að styðja það að við sem þjóð færum með vopn á hendur annarri fullvalda þjóð.

Það kom líka skýrt fram þá að ríkin sem væru á þessum lista, þau 30 ríki sem væru á lista yfir viljugar eða staðfastar þjóðir, ríkisstjórnir þeirra ríkja tækju siðferðilega og pólitíska ábyrgð á þessari styrjöld og afleiðingum hennar. Núna þegar liðið er rúmlega eitt og hálft ár frá þessum degi og styrjöldin geisar sem aldrei fyrr þá stendur þessi staðreynd. Ríkin bera siðferðilega og pólitíska ábyrgð á þessari styrjöld og afleiðingum hennar.

Undan þeirri staðreynd getum við ekki vikist, því miður, og það ber að harma. Ég lýsi því yfir sem íslenskur ríkisborgari, íslenskur þegn, að ég krefst þess að Íslendingar verði strax fjarlægðir af þessum lista. Íslenska þjóðin var ekki spurð álits áður en þessi ákvörðun var tekin, þingskapalög voru brotin, málið var ekki borið undir Alþingi eða utanríkisnefnd þess eins og lög kveða á um. Þetta, virðulegur forseti, er mjög alvarlegur hlutur, því að hér var tekin ein umdeildasta ákvörðun varðandi utanríkismál í sögu lýðveldisins. Ég hygg að ekki hafi verið tekin jafnumdeild ákvörðun um utanríkismál síðan Alþingi ákvað að Ísland skyldi verða aðili að NATO í mars árið 1949.

Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því að þessi innrás í Írak hófst hefur verið ömurlegt að fylgjast með þeim fréttum og sjá þær myndir sem teknar hafa verið á átakasvæðunum. Þessar fréttir eru stöðugt að versna, þær fara versnandi dag frá degi, sjálfsmorðssprengjuárásir, árásir skriðdreka, loftárásir, skotárásir hermanna, og saklaust fólk liggur í blóði sínu, börn, konur og karlar.

Síðustu daga höfum við orðið vitni að orrustu í borginni Falluja, orrustu sem staðið hefur yfir í hálfan mánuð. Við vitum ekki hversu margir hafa fallið en það er augljóst af þeim myndum sem við sjáum frá þessu svæði, frá þessari borg að þarna eiga sér stað gríðarlegar mannlegar þjáningar. Og það er alltaf svo, virðulegi forseti, að í myrkrinu eru allir kettir gráir og það er stutt á villidýrseðlið í mannskepnunni þegar styrjaldir eru annars vegar. Við höfum fengið að sjá að Bandaríkjamenn, þessir boðberar frelsis og lýðræðis, eru ekki barnanna bestir. Við höfum séð pyntingar á föngum. Í dag fengum við að sjá hvernig írakskur andspyrnumaður sem lá særður á gólfi, maður sem hafði leitað sér kirkjugriða sem voru álitin heilög vé á Íslandi áður fyrr, lá helsærður á gólfi í mosku, var skotinn eins og hundur af bandarískum hermanni án þess að fá rönd við reist. Þetta fengum við að sjá.

Við fengum líka að sjá í gær mynd þar sem bandarískur hermaður klifraði yfir húsvegg og hleypti af einu skoti á særðan írakskan andspyrnumann sem lá þar. Hann kom til baka og sagði: Þessi er búinn að vera. Hann hafði afgreitt hann með einni kúlu, særðan hermann.

Slík hegðun stríðir gegn öllum prinsippum í hernaði, hlýtur að stríða gegn öllum lögum sem siðmenntaðar þjóðir setja sér, jafnvel þótt á vígvelli sé. Þetta eru aðeins þau dæmi sem við höfum fengið að sjá, eflaust eru þau miklu, miklu fleiri, um hræðileg afbrot sem framin hafa verið á þessum ömurlega vígvelli.

Mér finnst það sem gerst hefur í Írak minna um margt á atburði sem gerðust í Evrópu fyrir 60 árum. Þá var við völd í Þýskalandi vitskertur maður sem hét Adolf Hitler. Hann fór með hernaði gegn nágrannaþjóðum sínum og gerði það einmitt á grundvelli upploginna saka eins og gerðist í Írak. Þjóðverjar skálduðu ástæður til að ráðast inn í Pólland í september árið 1939. Bandaríkjamenn og Bretar skálduðu ástæður til að ráðast inn í Írak árið 2003.

Þessar inrásir Þjóðverja leiddu til þess að fólk í þessum löndum, sem vildi ekki hafa erlenda innrásarheri, reis upp og hóf vopnaða andspyrnu. Innrásin í Írak leiddi til þess að íbúar Íraks risu einnig upp og hófu vopnaða andspyrnu, hófu að herja á innrásarherina. Þjóðverjar kölluðu reyndar ekki andspyrnumenn í Evrópu á sínum tíma hryðjuverkamenn vegna þess að það hugtak var ekki til þá en þeir litu á þá sem hryðjuverkamenn og kæmu þeir höndum yfir þá var þetta hugrakka fólk umsvifalaust dregið upp að næsta húsvegg og afgreitt með byssukúlum eða öðru. Það var tekið af lífi. Bandaríkjamenn gera hið saman þegar þeir koma höndum yfir írakska andspyrnumenn þessa dagana. Þeir skjóta þá eins og hunda.

Síðustu vikur og mánuði höfum við orðið vitni að uppreisn í einni af stærstu borgum í Írak, Falluja. Í ágúst árið 1944 braust út uppreisn í Póllandi, í Varsjá, vopnuð uppreisn andspyrnumanna. Sú uppreisn var barin niður af gríðarlegri hörku af Þjóðverjum þar sem barist var frá húsi til húss, frá götu til götu. Því lyktaði með að Þjóðverjar náðu aftur yfirráðum í Varsjá. Þeir sem eftir lifðu af andspyrnumönnum voru teknir til fanga, þeir voru teknir af lífi eða sendir í fangabúðir. Í Falluja er núna barist frá húsi til húss, frá götu til götu, og þeir uppreisnarmenn sem teknir eru til fanga eru teknir af lífi eða sendir í fangabúðir.

Hvað gerðu Þjóðverjar síðan þegar þeir voru búnir að ná undir sig Varsjá? Jú, þeir sprengdu borgina í tætlur, eyddu húsum með skipulögðum hætti þannig að þegar upp var staðið stóð ekki steinn yfir steini í einni af fegurstu borgum Evrópu. Þarna voru framdir hrottalegir stríðsglæpir. Ég hygg, herra forseti, að þegar upp verður staðið og við fáum að heyra sannleikann um orrustuna í Falluja þá sé á ferðinni nýtt dæmi svipað harmleiknum í Varsjá. Falluja verður lögð í rúst. Þar eru núna framdir stríðsglæpir og við berum ábyrgð á því.