131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:22]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram koma í þessu frumvarpi, að rétt sé að fara yfir starfsskipulag þingsins og starfstíma þess. Ég tel orðið fulla þörf á að gera það vegna þess að núverandi fyrirkomulag er komið til ára sinna og miðar við bændasamfélag fyrri tíma. Ég efast í raun um að það henti nútímabóndanum nokkuð betur en ýmsum öðrum sem hafa verið dregnir hér inn í umræðuna, t.d. fjölskyldufólki.

Sem landsbyggðarþingmanni finnst mér þetta vel koma til greina, sérstaklega ef kjördæmavikum verður fjölgað. Ég tel það þá mjög mikilvægt. Eins er nauðsynlegt að fara yfir það að þinghaldið verði ekki í þeim spretti sem það er. Það er svolítið sérstakt eins og hér hefur verið komið inn á að þung mál, stjórnarfrumvörp, fá oft litla kynningu áður en þau eru tekin á dagskrá. Það eru ekki nema tveir sólarhringar. Um það eru fjölmörg dæmi. Þetta er náttúrlega þveröfugt við það sem tíðkast meðal annarra þjóða. Eftir því sem mér skilst fara stjórnarfrumvörp annars staðar út í umræðuna allt að ári fyrr. Gott dæmi er fjölmiðlafrumvarpið sem var hér á dagskrá í vor, það var útbúið úti í bæ, síðan kom það hingað og átti að keyra í gegn einn, tveir og þrír. Það er náttúrlega með ólíkindum.

Annað sem þarf að fara yfir er dagskrá þingsins. Það er sjaldgæft að hún liggi fyrir með einhverri vissu, t.d. hvaða mál verða á dagskrá í vikunni. Maður veit sjaldnast fyrr en daginn áður eða kvöldið áður jafnvel hvernig dagskrá morgundagsins verður. Það er náttúrlega út í hött og hlýtur að vera hægt að kippa í liðinn. Kannski er skásta leiðin til úrbóta sú að lengja starfstímann þannig að spretturinn verði minni.

Nú er ég tiltölulega nýr í þessu starfi og mér finnst að löggjafarstarf eigi ekki að fara fram á einhverjum hlaupum. Ég tel þess vegna að það komi vel til greina að menn íhugi það að breyta starfsháttum þingsins.

Síðan er það röð mála sem eru tekin á dagskrá, t.d. ætlaði ég að fá umræðu utan dagskrár um atvinnuástand á Siglufirði. Ég bað um þá umræðu og á hana var fallist fyrir rúmum mánuði. Ég er hins vegar enn þá að bíða. Maður verður var við að ef upp koma óþægileg mál eru þau bara sett í salt, eða ég veit ekki hvað. Það hlýtur að vera hægt að gera þetta öðruvísi.

Hér var minnst á aðhald löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mér finnst sú umræða eiga vel heima í umræðunni um starfstíma þingsins, sérstaklega það að þingið fari í fimm mánuði í frí. Kannski er ekki rétt að segja frí því að margir starfsamir þingmenn sinna kjósendum og vinna í málum á þeim tíma sem þinghald liggur niðri. Það er samt sem áður áhyggjuefni fyrir mig hér að verða vitni að því æ ofan í æ að fulltrúar framkvæmdarvaldsins, hæstv. ráðherrar, hirða ekki um að svara spurningum þingmanna. Síðast var það hér í dag sem hæstv. landbúnaðarráðherra kaus að svara út í hött. Um daginn svaraði hæstv. fjármálaráðherra út í hött. Í rauninni er undarlegt að verða vitni að þessu, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra er fulltrúi fyrir flokk sem kennir sig við lýðræðið og vill, a.m.k.stundum, vera fulltrúi þess flokks sem vill hafa frjáls viðskipti og samkeppni en síðan þegar hann er spurður út í hvort t.d. ríkisfyrirtæki fari að reglum svarar hann út í bláinn. Það er áhyggjuefni. Það er ekki einungis það að starfstími þingsins sé of skammur heldur tel ég að forseti þingsins eigi að sinna þessu mun betur og ganga eftir því að þingmenn fái fullnægjandi svör við fyrirspurnum sem varða framkvæmdarvaldið. Í dag var umræða um Íraksstríðið, það er enn eitt dæmið.

Það er vissulega mikið áhyggjuefni fyrir okkur sem störfum hér og hreinlega lýðræðið í landinu þegar hæstv. ráðherrar sinna í rauninni illa og hirða ekki um að svara fyrirspurnum með fullnægjandi hætti. Eina svarið sem ég fékk í dag varðandi fyrirspurn í sambandi við mál sem ætti að vera lítið, en samt ekki vegna þess að það varðar stjórnarskrárbrot hæstv. landbúnaðarráðherra þegar hann braut á þeim sem reka sláturhúsið í Búðardal, var að hann væri vinur fólksins í Búðardal. Hvers konar svör eru þetta?

Sama má segja um svör hæstv. fjármálaráðherra. Þegar ég spurði hann og fékk skriflegt svar varðandi það hvort Síminn sem er ríkisfyrirtæki fari að bókhaldslögum eða fari að samþykktum Samkeppnisstofnunar var svarið það að honum væri ekki kunnugt um að svo væri, þ.e. eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að Póst- og fjarskiptastofnun hafi farið fram á það við Landssímann að hann hafi viðhaft fjárhagslegan aðskilnað á umræddri starfsemi.“

Það er náttúrlega áhyggjuefni að þegar hæstv. ráðherrar eru spurðir skuli þeir ekki svara. Það er ekki einungis starfstíminn sem plagar. Þó að þetta komi til umræðu meðan við ræðum starfstímann megum við ekki gleyma því að það þarf að fara rækilega í gegnum það að hæstv. ráðherrar svari af einhverju viti þeim fyrirspurnum sem fram koma.

Að lokum þakka ég flutningsmönnum fyrir þetta frumvarp enda tel ég þessa umræðu um starfshætti þingsins mjög þarfa, einnig það að bera hana saman við starfshætti t.d. þjóðþinga annars staðar á Norðurlöndum og víðar. Þetta frumvarp er vel þess virði að það verði skoðað og fái rækilega umfjöllun í nefndum þingsins.