131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:43]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst að hv. þm. Magnús Hafsteinsson hafi misskilið þingmálið. Síðari hluti ræðu hans studdi einmitt nákvæmlega við málflutning okkar flutningsmanna en við færum fyrir því rök að það sé mjög óeðlilegt að Alþingi sé af vettvangi í fimm mánuði. Ég hef sjálf undirstrikað það mjög að þingmenn eru að vinna í jólahléum og sumarhléum, að þetta sé ekki jólafrí og sumarleyfi og sjálf hef ég gert það í gegnum þau ár sem ég hef verið á þingi.

Hins vegar er ljóst að jólahléin og sumarhléin eru ekki besti tíminn til að hitta fólk í kjördæmunum. Það er miklu betra að hafa þessi hlé styttri þannig að Alþingi sé ekki af vettvangi í fimm mánuði. Betra væri að svo væri ekki nema í tvo, þrjá mánuði og að skipulagi og starfstíma Alþingis væri þannig háttað að sérstakar kjördæmavikur væru oftar á þingvetrinum þannig að hægt væri að fara um og hitta fólk í dagsins önn á hefðbundnum tíma, sem er hentugt, þegar þingið situr því fólk vill fá umfjöllun um það sem er að gerast í þinginu og getur þá komið á framfæri einhverju sem þingið á að láta sig varða.

Síðari hluti ræðu þingmannsins fellur því alveg að þeim sjónarmiðum sem við setjum fram í greinargerð þessarar tillögu og þegar ég mælti fyrir málinu kom það einmitt fram í ræðu minni að tillagan er einmitt um faglegri og betri vinnubrögð, fleiri tækifæri til að fara út í kjördæmin, að hætta ekki að skrifa greinar og hætta ekki að fara út á meðal fólks eða í kjördæmin heldur að starf okkar sé skipulagt þannig að það sé unnt.