131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

30. mál
[16:45]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók í raun og veru afskaplega vel í frumvarpið, að ég taldi, og get svo sem alveg stutt það að vinnutími Alþingis verði lengdur. En ég vil þá enn og aftur ítreka að það verði þá tekið meira tillit til okkar landsbyggðarþingmanna því að ég tel, í ljósi reynslu minnar eftir fyrsta ár mitt á þingi, að okkur veiti ekki af því að hafa rúman tíma til að fara um kjördæmi okkar og þá nefni ég enn og aftur þá hugmynd sem ég viðraði áðan, að við fengjum þá kannski frekar að kalla inn varamenn á þingtíma sem kæmu í staðinn fyrir okkur án þess að við þyrftum sjálfir að verða af launum fyrir vinnu okkar.

Ég vil svo nota tækifærið til að viðra aðra hugmynd sem ég gleymdi í ræðu minni áðan og það er að allir þingmenn sem sitja á þingi á hverjum tíma verði látnir gefa upp hvaða störf þeir hafi fyrir utan þingstörfin. Það er nú svo að við sem sitjum á hinu háa Alþingi erum á nokkuð háum launum og njótum nokkuð góðra kjara en ég hef lævísan grun um að þó nokkrir þingmenn séu í tvöföldu starfi, ef svo má segja, og mér finnst sjálfsagt að kjósendur verði upplýstir um hvaða önnur störf hv. þingmenn hafa samhliða þingstörfunum.