131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Stuðningur við einstæða foreldra í námi.

268. mál
[16:55]

Flm. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um stuðning við einstæða foreldra í námi, sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa starfshóp sem móti tillögur um aðgerðir til að bæta aðstöðu einstæðra foreldra í námi með fjárhagslegum og félagslegum stuðningi með það að markmiði að einstæðir foreldrar geti fylgt jafnöldrum sínum í námi á framhaldsskólastigi og stundað nám á efri skólastigum til jafns við aðra.“

Hugtakið „velferð“ hefur í meginatriðum tvöfalda merkingu. Annars vegar þarf að tryggja öllum sómasamlegt lífsviðurværi og viðunandi afkomu, þ.e. efnahagslega velferð. Hins vegar er hin félagslega velferð sem felst í því að hver og einn eigi þess kost að njóta lífsins og nýta hæfileika sína að fullu.

Til eru fjölmennir samfélagshópar sem eiga beint og óbeint mikið undir því að velferðarkerfið og öll stefnumótun í velferðarmálum taki tillit til þarfa þeirra og stöðu. Fátækt er útbreitt og vaxandi vandamál, hlutskipti æ fleiri einstaklinga og fjölskyldna, m.a. þess stóra hóps einstæðra foreldra sem getur átt mjög erfitt þegar kemur að því að sækja sér menntun og stunda nám. Það er vitað að þeir sem ekki eiga þess kost að mennta sig eru líklegri en aðrir til að festast í fátækt. Það er því mikilvægt að menntakerfi framtíðarinnar bjóði upp á símenntun fyrir alla óháð efnahag.

Þann 1. desember 2003 voru á Íslandi tæplega 12.000 einstæðir foreldrar. Í þessum stóra hópi voru 143 einstæðar mæður og einn einstæður faðir 19 ára eða yngri. Samsvarandi tölur fyrir aldurshópinn 20–29 ára 1. desember 2003 voru 3.208 einstæðar mæður með börn og 80 einstæðir feður með börn. Af þessum hópi voru rúmlega 2.000 í námi og tæplega 1.000 á framhaldsskólastiginu.

Að fleiru er að hyggja en fjárhagslegum hliðum þessa máls. Félagslegar aðstæður verða að vera þannig að einstæðir foreldrar geti yfir höfuð sinnt námi sínu. Þar verður einkum að staldra við húsnæðismál, dagvistun og leikskólamál. Margir einstæðir foreldrar eiga ekki annarra kosta völ en að búa í foreldrahúsum til að láta enda ná saman þótt sú leið sé ekki endilega ávísun á betri aðstæður til að sinna t.d. heimanámi. Samfélagið á að styðja alla til að hafa þak yfir höfuðið og ungu fólki sem er að stofna heimili þarf að veita sérstakan stuðning. Auka þarf framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess þarf að styðja við Félag einstæðra foreldra sem rekur neyðarhúsnæði fyrir félagsmenn sína.

Grunnmenntun, þ.e. nám í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á að vera nemendum að kostnaðarlausu. Leikskólar eru hluti af menntakerfinu og hefur verið mótuð sérstök námskrá fyrir það skólastig. Einstæðum foreldrum er víða léttur róðurinn með lægri leikskólagjöldum en almennt tíðkast og er það vel. En hins vegar má velta því fyrir sér hvort það geti talist eðlilegt að greidd séu há skólagjöld fyrir skólagöngu á leikskólastigi.

Í skýrslu sem vinnuhópur forsætisráðherra skilaði af sér um fátækt er lagt til að tekjutengja mætti leikskólagjöld og létta þannig undir með fátæku barnafólki þar sem slíkt mundi örva fólk til sjálfshjálpar og gefa þeim kost á að stunda hvort sem er nám eða vinnu. Í þessu tilliti vega jafnréttissjónarmið þungt þar sem einstæðir foreldrar eru fjölmennasti hópurinn sem nýtur fjárhagsaðstoðar og því er ljóst að ef létt væri enn frekar undir með þeim varðandi leikskólagjöld mundi það skapa þeim mun betra tækifæri til náms og/eða atvinnuþátttöku.

Skólastarfið er á meðal mikilvægustu innviða samfélagsins. Markmið þess á að vera að veita hverjum nemanda menntun við sitt hæfi. Ekkert er mikilvægara en að sérhver einstaklingur komist til þess þroska sem hann má. Menntakerfið er mikilvægur þráður í uppistöðu þess flókna vefs sem myndar stoðkerfi samfélagsins. Það þarf að vera í stöðugri þróun og uppbyggingu en jafnframt þarf að auka tækifæri foreldra til að sinna uppeldishlutverki sínu.

Þess vegna viljum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði auka fjölbreytni í skólastarfi og tryggja fullt jafnrétti til náms óháð efnahag. Mikilvægt er að horfa sérstaklega til kvenna sem ekki hafa náð að ljúka framhaldsskólanámi áður en stofnað var til fjölskyldu og hættir til að lenda í fátæktargildru.

Í samtali mínu við formann Félags einstæðra foreldra kom fram að hann teldi að fjölþættur stuðningur væri nauðsynlegur til að styðja almennt við starfsemina. Fyrir gerð síðustu fjárlaga sótti félagið um stuðning í námsstyrkjasjóð sinn en fékk neitun frá ríkinu. Fram til þessa árs naut félagið stuðnings Rauða kross Íslands ásamt því að leggja sjálft fram peninga. Markmiðið með sjóðnum var að til yrði höfuðstóll sem einstæðir foreldrar gætu sótt í. Ásóknin hefur hins vegar verið mun meiri en ráð var fyrir gert og nú er sjóðurinn að tæmast. Rauði krossinn telur að hlutverki sínu sé lokið samkvæmt upphaflegu markmiði þrátt fyrir að ekki hafi tekist að safna þessum höfuðstól.

Það kom einnig fram í samtali okkar að mikill fjöldi einstæðra foreldra gæti ekki hafið nám aftur vegna fátæktar og aðstöðuleysis. Greiða þarf leið þessa hóps, þeirra sem hætt hafa námi tímabundið, vilji þeir hefja nám aftur eða óski eftir að sækja sér viðbótarmenntun.

Eins og fram kemur í greinargerðinni veitir Félag einstæðra foreldra u.þ.b. 15 styrki á ári hverju að upphæð 50–110 þúsund. Umsóknirnar eru hins vegar margfalt fleiri og segir það sitt um þörf einstæðra foreldra fyrir stuðning. Vissulega hafa þessir styrkir án vafa komið mörgum yfir ákveðinn hjalla en það liggur í augum uppi að svo lítill námssjóður getur engan veginn gegnt því hlutverki að jafna aðstöðu barnafólks í framhaldsskólum eins og hér er lagt til.

Einstæðar mæður yngri en 19 ára skila sér illa í framhaldsskóla og eru einungis tæp 33% prósent þeirra í námi. Eins og sjá má á töflunni sem fylgir greinargerðinni eru um 16% einstæðra mæðra á aldrinum 20–29 ára enn í framhaldsskóla og um 4% 30 ára og eldri. Ekki verður dregin önnur ályktun af þessari tölfræði en sú að einstæðar mæður dragist verulega aftur úr jafnöldrum sínum í námi.

Ef maður veltir fyrir sér aðstæðum einstæðrar móður sem hyggur á nám þá þarf hún undantekningarlítið að sækja um styrki eða lán til að stunda námið því ekki getur hún unnið með náminu án þess að það bitni á nauðsynlegri samveru hennar við börn sín. Hún er samt eina fyrirvinna heimilisins og þarf að sjá sjálfri sér og börnum sínum fyrir daglegum nauðsynjum, vinna heimilisstörfin, koma börnunum í skóla eða leikskóla, fara svo sjálf í skólann og eiga síðan eftir að sinna heimanáminu.

Á tyllidögum berum við okkur gjarnan saman við Norðurlöndin og því fannst mér áhugavert að lesa á vordögum að Danir hækkuðu námsstyrki til einstæðra foreldra um helming.

Í Berlingske tidende í mars sagði danski menntamálaráðherrann, með leyfi forseta:

„Ég er mjög ánægð með að það skuli hafa tekist að hafa náð pólitísku samkomulagi um að styðja betur við einstæða foreldra í námi og tel það löngu tímabært.“

Styrkur danska ríkisins í gengum námsstyrkjakerfið verður samkvæmt samkomulaginu ríflega 100 þúsund á mánuði. Danska ríkið hefur það fram yfir það íslenska að bjóða þegnum sínum styrki til náms og líklega kominn tími á að slíkt sé skoðað hér af einhverri alvöru.

Nám hvers námsmanns er þýðingarmikið fyrir alla þjóðina. Því ber að gera öllum kleift að stunda nám með stuðningi hagstæðra námslána sem einnig taka til efnis- og bókakaupa. Lánasjóður íslenskra námsmanna hleypur undir bagga með skólafólki upp að vissu marki en það takmarkast við háskólanám og það sérskólanám sem telst lánshæft samkvæmt reglum lánasjóðsins. Út af stendur allt almennt nám á framhaldsskólastigi og kemur það afar illa við einstæða foreldra sem hafa orðið að gera hlé á skólagöngu sinni vegna fjölskylduaðstæðna.

Öflugt námslánakerfi er ekki aðeins hagsbót fyrir einstaklingana sem námið stunda heldur líka hagkvæmt þjóðinni. Þess vegna eiga reglur um námslán að vera sveigjanlegar með tilliti til samsetningar og lengdar náms. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um breytingu á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ekki er þar að sjá breytingu sem gæti náð til þessa námsmannahóps á framhaldsskólastiginu.

Þó kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Í stefnuyfirlýsingunni frá 23. maí 2003 er lögð áhersla á að LÍN gegni áfram því meginhlutverki að tryggja öllum tækifæri til náms.“

Tryggja öllum tækifæri til náms. Eðlilegt væri að sá starfshópur sem hér er gerð tillaga um fari vandlega yfir hvort ekki þurfi að breyta þessum lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna á þann veg að námslán verði einnig veitt til foreldra sem eru að hefja nám á framhaldsskólastigi á nýjan leik.

Hér hefur aðeins verið stiklað á helstu þáttum sem þurfa að koma til skoðunar ef jafna á aðstöðu einstæðra foreldra og annarra landsmanna til að afla sér menntunar. Við viljum öll státa af jafnrétti til náms í þjóðfélagi okkar og það felur m.a. í sér greiðan aðgang að námi á framhalds- og háskólastigi án tillits til efnahags, búsetu eða fjölskylduaðstæðna.