131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:15]

Flm. (Sigríður Ingvarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga með það fyrir augum að taka upp nýjan þjóðsöng sem væri auðveldari í flutningi og hentaði betur til almennrar notkunar, svo sem í skólum, á íþróttakappleikjum og við önnur tækifæri. Tillöguna flyt ég ásamt hv. þm. Hilmari Gunnlaugssyni. Í greinargerð segir, með leyfi forseta:

,,Á 121. löggjafarþingi var flutt tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga. Meðal annars var lagt til að tekið yrði til athugunar hvort rétt væri að taka upp annan þjóðsöng við hlið núverandi þjóðsöngs. Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga.

Í tillögu þessari er hins vegar lagt til að kannað verði hvort rétt sé að skipta um þjóðsöng. Því til stuðnings má einkum benda á að þjóðsöngurinn, Ó, guð vors lands, er mörgum svo erfiður til söngs að afar hæpið er að hann geti að öllu leyti þjónað hlutverki sínu. Almenningur hefur því oft gripið til annarra ættjarðarsöngva til að minnast lands síns svo sem Ísland ögrum skorið, Þú álfu vorrar yngsta land, Öxar við ána, Ég vil elska mitt land, Yfir voru ættarlandi, Sjá, dagar koma, Hver á sér fegra föðurland, Land míns föður, Úr útsæ rísa Íslands fjöll og Ísland er land þitt. Einnig má benda á að við sum tækifæri hentar þjóðsöngurinn ekki alls kostar vel af því að hann þykir of hátíðlegur.“

Flutningsmenn telja rétt að nýr þjóðsöngur verði valinn úr hópi söngva sem þegar hafa unnið sér sess í huga þjóðarinnar sem ættjarðarsöngvar, þ.e. að ekki skuli efnt til samkeppni á meðal ljóðskálda og tónskálda um nýjan þjóðsöng. Flutningsmenn mæla einkum með tveimur af áðurnefndum ættjarðarsöngvum, þ.e. annars vegar Ísland ögrum skorið, ljóð eftir Eggert Ólafsson og lag eftir Sigvalda Kaldalóns, og hins vegar Ísland er land þitt, ljóð eftir Margréti Jónsdóttur og lag eftir Magnús Þór Sigmundsson.

Löngu eftir að Ó, Guð vors lands hafði hlotið almenna viðurkenningu sem þjóðsöngur var farið að nota Ísland ögrum skorið sem eins konar þjóðsöng og sýndu menn því þá virðingu að rísa úr sætum þegar lagið var flutt.

Ljóðið Ísland er land þitt er ungt að árum, samið árið 1970. Í inngangskafla bókarinnar Ísland er land þitt, úrval ættjarðarljóða kemur m.a. fram: „Ánægjulegt er að finna hvað ættjarðarljóð eiga sterkan hljómgrunn hjá þjóðinni, jafnt ungum sem öldnum. Staðfesting fékkst á því nýlega þegar fram kom á sjónarsviðið gullfallegt lag og ljóð sem samstundis var á allra vörum. Boðskapur þess er skýr og lætur engan ósnortinn: Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma.“

Eins og ljóðin bera með sér er um að ræða óð til landsins. Ekki þarf að fara mörgum orðum um fegurð laganna og hafa margir af helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar flutt þau á eftirminnilegan hátt. Það er mat okkar flutningsmanna að söngvarnir hafi allt til að bera til að geta orðið þjóðsöngur Íslendinga. Þeir eru allt í senn hátíðlegir, auðveldir í flutningi og henta við fjölbreyttari aðstæður en núverandi þjóðsöngur. Þá eiga söngvarnir mjög vel við á íþróttakappleikjum, t.d. fyrir landsleiki, enda þess eðlis að bæði leikmenn og stuðningsmenn geta sameinast um að taka rösklega undir. Slíkt yrði til þess fallið að efla baráttuanda og fylla keppnisfólk eldmóði.

Vissulega er lofsöngurinn Ó, Guð vors lands mörgum Íslendingum hjartfólginn enda er tæpast ágreiningur um tign og fegurð hans. Með tilliti til þess yrði hann að sjálfsögðu áfram sunginn við ýmis hátíðleg tækifæri þótt hann yrði aflagður sem þjóðsöngur Íslendinga. Mikilvægt er að þjóðsöngurinn sé auðlærður og auðfluttur auk þess að vera óður til landsins okkar.“

Virðulegi forseti. Þjóðsöngurinn okkar, Ó, Guð vors lands, er upphaflega sálmur ortur upp úr 90. Davíðssálmi. Matthías Jochumsson orti ljóðið og Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið. Hann var frumfluttur við hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni árið 1874 í minningu þúsund ára byggðar á Íslandi. Hvorki höfundi ljóðs né lags mun hafa hugkvæmst að úr þessum sálmi yrði síðar þjóðsöngur. Í frumútgáfu kvæðis og lags heitir hann „Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára“ og kemur setningin „Íslands þúsund ár“ fyrir í öllum þremur erindunum vegna þess tilefnis sem ort var fyrir.

Það tók langan tíma fyrir Ó, Guð vors lands að vinna sér sess sem þjóðsöngur og meðan fullveldið átti enn langt í land og Íslendingar sungu fyrir minni ættjarðarinnar má segja að Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen væri einhvers konar þjóðsöngur okkar, en það ljóð var sungið undir lagi enska þjóðsöngsins „God save the Queen“ svo það gat alls ekki gengið sem íslenskur þjóðsöngur þrátt fyrir almennar vinsældir.

Það var árið 1948 sem íslenska ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu við þjóðsönginn og ári síðar, eða 1949, að ljóðinu. Það var svo ekki fyrr en 1983 sem samþykkt voru lög á Alþingi um þjóðsöng Íslendinga en árið áður hafði menntamálaráðuneytið lagt til við forsætisráðuneytið að settar yrðu reglur um meðferð hans. Sem sagt frá árinu 1983 höfum við haft Ó, Guð vors lands sem þjóðsöng samkvæmt lögum og nú finnst mér kominn tími til að breyta því.

Virðulegi forseti. Þess má geta að á síðari árum hafa reglur breyst varðandi flutning þjóðsöngva á íþróttalandsleikjum og stórmótum, eins og t.d. á Ólympíuleikum, og má flutningurinn ekki taka meira en 75 sekúndur. Af því leiðir að annaðhvort þarf að stytta þjóðsönginn okkar eða að breyta tónhraðanum og á hvorn veginn sem farið er að er um algjöra afbökun að ræða að mínu mati.

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með þau miklu og jákvæðu viðbrögð og miklu umfjöllun sem málið hefur fengið úti í þjóðfélaginu, enda er hér um að ræða mál sem flestallir hafa skoðun á. Þess má til gamans geta að í framhaldi af umfjöllun útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar var gerð smáskoðanakönnun á vefsíðu þeirrar útvarpsstöðvar og almenningur spurður út í hvaða þjóðsöng hann vildi fá. Niðurstöður könnunarinnar voru að 75% svarenda vildu fá nýjan þjóðsöng og þar af 59% sem vildu fá lagið Ísland er land þitt sem nýjan þjóðsöng.

Ég vil taka það sérstaklega fram að mér finnst Ó, Guð vors lands vera mjög fallegt ljóð og lag en það hentar bara alls ekki sem þjóðsöngur. Því erum við ekki að nota þjóðsönginn okkar sem skyldi. Eins og fyrr segir er hann mjög erfiður í flutningi þar sem hann spannar mjög vítt tónsvið. Hann er erfiður að læra og skilja fyrir yngstu kynslóðina og hann er sálmur og óður til almættisins en ekki til ættjarðarinnar. En aðalatriðið er að þjóðsöng á að vera hægt að syngja með góðu móti.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessi tillaga verði rædd hér og henni verði síðan vísað til hv. allsherjarnefndar.