131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Nýr þjóðsöngur.

279. mál
[17:48]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Afstaða mín í málinu er alveg skýr. Ég er alfarið á móti því að við skiptum um þjóðsöng, algerlega á móti því, það kemur ekki til greina.

Íslenski þjóðsöngurinn hefur lifað með þjóðinni í 130 ár. (Gripið fram í.) Hann var ortur af Vestfirðingnum Matthíasi Jochumssyni, síðar dannebrogsmanni og heiðursborgara á Akureyri. Lagið er eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Þetta er ákaflega fallegt og hátíðlegt lag. Það er yfirleitt spilað við mjög hátíðleg tækifæri eða á íþróttakappleikjum þar sem þjóðin kemur fram í heild sinni, ef svo má segja, og ég tel að við eigum að hafa það þannig. Ég kaupi ekki þá röksemd að þjóðsöngurinn eigi að vera svo einfaldur og auðlærður að jafnvel yngstu börnin geti sungið hann.

Það er nefnilega þannig, frú forseti, að við Íslendingar eigum afskaplega ríkan menningararf þegar ljóð og sönglög eru annars vegar. Við eigum ómetanlegan fjársjóð af alls kyns barnagælum og vísum sem við höfum sungið fyrir börnin okkar um aldir og þau læra þegar þau eru að alast upp. Það er mér alveg að meinalausu þó börnin mín læri ekki íslenska þjóðsönginn og skilji texta hans fyrr en þau eru komin til vits og ára. Íslenski þjóðsöngurinn á ekki að vera einhver rútubílasöngur, þetta á að vera lag sem er notað og sungið við hátíðleg tækifæri.

Við eigum nokkur helg vé, ef svo má segja, sem íslensk þjóð. Það má nefna Þingvelli, stjórnarskrána og Alþingishúsið, en einnig íslenska þjóðsönginn. Ég verð að segja að í hvert sinn sem ég heyri þetta fallega lag annaðhvort sungið eða leikið eða hvort tveggja fyllist ég alltaf ákveðnum eldmóð. Það hefur þannig áhrif á mig. Ég vil halda í þetta lag.

Hér hefur m.a. verið nefnt að það eigi frekar að taka Ísland ögrum skorið upp sem þjóðsöng. Þá vil ég benda á þá sögulegu staðreynd að Ísland ögrum skorið keppti á sínum tíma um hylli þjóðarinnar sem þjóðsöngur og varð undir í þeirri samkeppni. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Jú, ég tel að það hafi einfaldlega verið vegna þess að Ó, guð vors lands er einfaldlega það besta sem okkur hefur boðist í 130 ár og við eigum að halda í þennan söng sem þjóðsöng á meðan land byggist.