131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Kynning á íslenskri list í sendiskrifstofum Íslands.

296. mál
[17:51]

Flm. (Sigríður Ingvarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 323 um kynningu á íslenskri list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands, að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að móta stefnu til þess að kynna íslenska list og hönnun í sendiskrifstofum Íslands erlendis.

Tillöguna flyt ég ásamt hv. þingmönnum Ástu Möller, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Drífu Hjartardóttur, Hilmari Gunnlaugssyni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að móta stefnu til þess að koma íslenskri list og hönnun í víðasta skilningi á framfæri í sendiskrifstofum Íslands. Eitt af hlutverkum þeirra er að sinna menningarmálum og er markviss kynning á íslenskri list og hönnun kjörinn vettvangur til þess. Með því væri sérstöðu og sérkennum íslenskrar hönnunar og listar komið á framfæri og jafnframt ímynd lands og þjóðar.

Mikilvægi hönnunar og lista er að aukast í alþjóðavæðingu nútímans og er skörun milli listasviða orðin meiri. Aukin framlög til Listaháskóla Íslands hafa styrkt stoðir lista og er mikil gróska í þeim sem nauðsynlegt er að hlúa vel að með því að kynna þær og koma á framfæri sem víðast. Kynning á alþjóðavettvangi gæti haft í för með sér aukna eftirspurn og möguleika á markaðssetningu og útflutningi og er nauðsynlegt að nýta sem flestar leiðir til að koma hönnun og list á framfæri þar sem markaðir eru stærri og eru sendiskrifstofurnar vel til þess fallnar. Þannig mætti nýta leiðir sem sendiráðin nota við kynningu á starfsemi sinni, t.d. á netinu, til að kynna íslenska list, hönnun, bókmenntir, tónlist o.fl. með tengingu á heimasíður samtaka hönnuða, listamanna og safna og auðvelda þannig aðgengi að upplýsingum. Þá gætu sendiherrar, viðskiptafulltrúar og aðrir starfsmenn sendiskrifstofa unnið að því með söfnum, samtökum og samböndum innlendra listamanna og nýstofnaðri Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Hönnunarmiðstöð að nýta húsnæði sendiráða til sýninga og kynninga á list þeirra. Einnig væri unnt að nýta þau sambönd sem starfsmenn sendiráða og jafnvel ræðismenn hafa við einstaklinga, samtök, stofnanir og fyrirtæki og ná þannig miklum árangri samhliða hagkvæmni og sparnaði.

Hönnun er eitt af fyrstu skrefum í framleiðslu og er hún því hentug fyrir einyrkja og minni fyrirtæki en íslensk fyrirtæki eru flest smá á alþjóðlegum mælikvarða og eiga því erfitt með að koma vöru sinni og list á framfæri erlendis. Þá er hönnun mikilvæg forsenda nýsköpunar í atvinnulífi og hvatning til vandaðrar hönnunar við vöruþróun og markaðssetningu eflir samkeppnishæfni í íslensku atvinnulífi og verðmætasköpun og ber árangur annarra þjóða vott um að hönnun og list eru verðmætar útflutningsvörur.“

Eyjólfur Pálsson húsgagnaarkitekt skrifaði góða grein í Morgunblaðið 8. febrúar sl. sem bar yfirskriftina „Hönnun er hluti íslenskrar menningar“. Í greininni kemur fram, með leyfi forseta:

„Sem dæmi um íslenska hönnun í sendiráðum erlendis má nefna að á skrifstofu Fastanefndar Íslands hjá NATO í Brussel eru fundarhúsgögn hönnuð af Sturlu Má Jónssyni og framleidd hjá Á. Guðmundssyni. Sama er að segja um skrifstofu- og fundarhúsgögn á skrifstofu sendiráðsins í London en þar er einnig að finna sófa og stóla hannaða af Guðbjörgu Magnúsdóttur. Húsgögn sendiráðsskrifstofanna í Kaupmannahöfn og Ottawa í Kanada eru hönnuð af Guðrúnu Margréti Ólafsdóttur, Oddgeiri Þórðarsyni, Erlu Sólveigu Óskarsdóttur og Pétri B. Lútherssyni. Í sendiherrabústaðnum í Maputo eru stólar og sófi frá GÁ húsgögnum, hönnun Guðbjargar Magnúsdóttur. Á skrifstofu sendiráðsins í Stokkhólmi eru húsgögn frá Á. Guðmundssyni o.fl. og hönnuðirnir eru Sturla Már Jónsson, Sigurður Gústafsson og Leó Jóhannsson. Íslenska sendiráðið í Berlín er gott dæmi um verk íslenskra arkitekta og hönnuða. Arkitekt hússins er Pálmar Kristmundsson, arkitekt/pk-hönnun arkitektar. Í lýsingu arkitektanna á verkinu segir m.a. „Eitt af markmiðum verkefnisins var að sendiráðið bæri íslensku hug- og handverki fagurt vitni.“ Um þetta segir Ingimundur Sigfússon, nú sendiherra í Tókíó en þá í Berlín, í viðtali við Hús og híbýli að sendiráðsbyggingin hafi hlotið mikið lof. Húsgögn séu öll sérsmíðuð og sömuleiðis innréttingar en hvort tveggja sé hannað af pk-hönnun og framleitt af Smíðastofu Sigurðar R. Ólafssonar og Desform. Auk þess séu í sendiráðinu stólar sem Erla Sólveig Óskarsdóttir húsgagna- og iðnhönnuður hafi hannað. Á skrifstofu sendiráðsins í Tókíó eru húsgögn hönnuð af Yrki-arkitektum og í sendiherrabústað eru sófasett og borðstofuhúsgögn hönnuð af Yrki en stólar hannaðir af Þórdísi Zoëga. Loks er tímaritastandur í sendiráðinu í Helsinki, hönnun Guðmundar Einarssonar.

Eftir þessa upptalningu má svo ekki gleyma að í Brussel, Ottawa og í Tókíó eru sérhönnuð glös frá Gler í Bergvík, verk þeirra Sigrúnar Einarsdóttur og Sörens S. Larsen. Þessi glös eru einmitt frábært dæmi um áhrif þess að nýta, kynna og sýna verk íslenskra hönnuða í sendiráðum Íslands hvar sem þau eru í heiminum. Glösin rötuðu nefnilega inn á borð japönsku keisarafjölskyldunnar eftir að fulltrúar hennar höfðu notið þess að handfjalla þau og drekka úr þeim í veislu í sendiráðinu í Tókíó.

Íslensk stjórnvöld eru vissulega á réttri leið. Í Danmörku er það innkaupastefna hins opinbera að skoða danskar vörur áður en ákvörðun um vörukaup er tekin. Eins ættum við ævinlega að líta í kringum okkur og huga að því hvað til sé íslenskt sem uppfyllir óskir og þarfir í hverju tilviki fyrir sig, áður en annað er keypt. [...] Ef ekkert er til sem hæfir er ef til vill ástæða til að gefa einhverjum tækifæri til þess að hrinda af stað framleiðslu á hlutum sem kannski hafa þegar verið hannaðir en eru ekki komnir í framleiðslu. Það hefur svo sannarlega áhrif á markaðsetningu íslenskrar hönnunar erlendis þegar fólk kemur í sendiráðin og sér hvað íslenskir hönnuðir hafa upp á að bjóða.“

Svavar Gestsson sendiherra í Stokkhólmi segir „Hönnun er auðlind“ í grein sem birtist í Morgunblaðinu í nóvember á sl. ári. Til að virkja auðlindina, hönnun, enn frekar en gert hefur verið verði allir þeir sem hlut eigi að máli að standa saman, þétt. Það sé mikilvægt því að úrtöluraddirnar séu háværar svo sem eðlilegt sé þegar erfitt sé að sjá samhengi hlutanna sem skyldi.

Sendiherrann segir enn fremur í Morgunblaðsgreininni, með leyfi forseta:

„Með því að hafa íslenska hönnun í sendiráðinu erum við að sýna íslenska menningu; hún birtist til dæmis í ballett, popptónlist, óperusöngvurum, bókmenntum og glæsilegum hestum. Það finnst engum tiltökumál; en þegar kemur að hönnun húsgagna birtast vandlætingargreinar. Af hverju? Það er umhugsunarefni því hönnun er líka menning.“

Virðulegi forseti. Markmið með tillögu þessari er að íslensk list og hönnun verði í hávegum höfð í sendiskrifstofum Íslands erlendis í því skyni að auka vegsemd hennar og koma menningu þjóðarinnar á framfæri sem víðast. Með því yrðu stoðir atvinnulífs og nýsköpunar í landinu einnig styrktar.

Virðulegi forseti. Að lokum legg ég til að þingsályktunartillögu þessari verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.