131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Byggð og búseta í Árneshreppi.

213. mál
[12:08]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu máli. Ég fagna því auðvitað að nú liggi þessi niðurstaða nefndarinnar fyrir. Ég hafði dálitlar áhyggjur af því hvernig til tókst í upphafi. Það gekk mjög illa að koma þessari nefnd í fyrsta lagi á laggirnar og síðan af stað en aðalatriðið er auðvitað að nú hefur hún lokið störfum og lagt fram hugmyndir sínar.

Ég treysti mér ekki hér og nú til að taka efnislega afstöðu til þessara hugmynda enda er ég að heyra af þeim núna í fyrsta skipti. Margt af þeim er nokkuð nýstárlegt en þá ber líka að geta þess að tillagan var það sjálf á allan hátt. Eins og hæstv. þáverandi forsætisráðherra vakti athygli á var mjög sérstakt að gera ályktun af þessu taginu en það var líka athyglisvert að um þetta mál var algjör samstaða í þinginu. Ég er alveg sannfærður um að það endurspeglar það að menn vilja gera sérstakar aðgerðir af sérstöku tagi fyrir þennan hrepp, fyrir þetta sveitarfélag. Ég lít þannig á að viðbrögð hæstv. forsætisráðherra séu lofandi í þeim efnum og að hæstv. forsætisráðherra vilji standa við bakið á þessu. Við gerum okkur grein fyrir því að við munum fara ótroðnar slóðir í þessari tillögugerð en það verður að vera svo.