131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lágmarkshlutfall kynja í stjórnum hlutafélaga.

90. mál
[12:17]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í nýlegu svari fjármálaráðherra til mín um kynjahlutföll í stjórnum lífeyrissjóðanna kom fram að hlutur karla í stjórnum tíu stærstu lífeyrissjóðanna og í stjórnunarstöðum væri tæplega 91% og hlutur kvenna innan við 10%. Það olli vonbrigðum að hæstv. fjármálaráðherra þætti engin ástæða til aðgerða eða til að lögfesta reglur um kynjahlutföll í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Í annarri fyrirspurn til fjármálaráðherra um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga kemur fram að í 50 stærstu hluta- og einkahlutafélögum sitja 246 einstaklingar, þar af 231 karl og 15 konur. Karlar eru því samtals tæplega 94% af stjórnarmönnum 50 stærstu hlutafélaganna á atvinnu- og fjármálamarkaði en konur rétt rúmlega 6%.

Í Noregi hefur hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja aukist eftir ákvörðun þarlendra stjórnvalda fyrir ári og er nú 19,3%. Markmiðið er að 40% stjórnarmanna verði konur fyrir mitt ár 2005. Náist ekki það markmið verða sett lög þar um sem taka gildi um mitt ár 2007 og taka til 600 stærstu skráðu fyrirtækjanna í Noregi. Í Svíþjóð hafði fyrrverandi jafnréttisráðherra, Margareta Winberg, ætlaði að beita sér fyrir lagasetningu um að lágmark 25% kvenna sætu í stjórnum sænskra fyrirtækja fyrir árslok 2004. Nýlega kom fram að ekki lægi ljóst fyrir hvort nýr jafnréttisráðherra, Mona Sahlin, mundi halda sama striki en ekkert bendir til annars en að í Svíþjóð komi einnig til lagasetningar.

Svör fjármálaráðherra á Alþingi staðfesta að hér þarf að grípa til róttækra aðgerða til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja í atvinnulífi og hjá lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir verða að svara fyrir það hvers vegna hlutur kvenna í stjórnum þeirra er svo rýr. Auðvitað er brýnt að konur hafi mótandi áhrif í lífeyrissjóðunum, ekki síður en karlar. Breyti lífeyrissjóðirnir ekki sjálfir samþykktum sínum um hvernig vali á stjórnarmönnum skuli háttað verður að setja lög sem tryggja aukinn hlut kvenna í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Það er full ástæða til að breyta hlutafélagalögunum og koma á kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Það er jákvætt og knýjandi að viðhorf kvenna hafi meiri mótandi áhrif en hingað til við stjórnun fyrirtækja í atvinnulífi og á fjármálamarkaði.

Því er hæstv. ráðherra spurður, virðulegi forseti, eftirfarandi spurningar:

,,Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir lagabreytingum um tiltekið lágmarkshlutfall af hvoru kyni í stjórnum hlutafélaga?“