131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lágmarkshlutfall kynja í stjórnum hlutafélaga.

90. mál
[12:25]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Valdastaða kvenna, hvort heldur á almenna markaðnum eða innan opinberra stofnana, er fremur bágborin. Það þarf að leita leiða til þess að styrkja hana. Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur komu mjög athyglisverðar staðreyndir fram í svari hæstv. fjármálaráðherra nýverið um stöðu kvenna innan hlutafélaga. Það er ljóst að það þarf að gera mun betur en staðan segir til um.

Ég hef hins vegar ákveðnar efasemdir um þá leið sem háttvirtur þingmaður spurði eftir. Ég held að fyrirtækin þurfi að gera sér grein fyrir því sem þau fara á mis við með því að fá ekki konur til að starfa innan stjórna fyrirtækja. En ég tel að Samtök atvinnulífsins eigi sjálf að setja sér slíkar reglur, sem einn þátt í stjórnunarháttum fyrirtækja, á sama hátt og stjórnvöld hafa sett sér reglur um jafnréttisstefnu hjá opinberum stofnunum. Ég hef ákveðnar efasemdir um þá leið sem farin er í Noregi. Hins vegar er ágætt að skoða hana til að hrista upp í fólki (Forseti hringir.) og átta sig á hvaða leiðir eru færar.