131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Lágmarkshlutfall kynja í stjórnum hlutafélaga.

90. mál
[12:28]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og fagna svörum hæstv. ráðherra sem eðlilega sýnir fullan skilning á þessu máli, að grípa þurfi til sérstakra aðgerða til að fjölga konum í stjórnum hlutafélaga.

Ég er ósammála háttvirtum þingmanni sem hér talaði og benti á að fyrirtækin ættu sjálf að setja sér markmið í þessu efni og benti í því sambandi á jafnréttisáætlanir hjá opinberum stofnunum. Við þekkjum alveg hvernig þær eru. Þær hafa ekki gengið eftir og fyrirtækin eru langt frá því að ná þeim markmiðum sem þar hafa verið sett. Við þekkjum líka jafnréttislögin, að þar hafa markmiðin ekki náðst fram þrátt fyrir góða viðleitni.

En ráðherrann sýnir á þessu fullan skilning. Það er meira en kollegi hennar, hæstv. fjármálaráðherra, gerir. Hann sér enga ástæðu til aðgerða eða til að lögfesta reglur um kynjahlutföll í stjórnum lífeyrissjóðanna þótt þar sé um sama vandamálið að ræða og hjá hlutafélögunum.

Í öllu því umróti sem nú er í fjármála- og atvinnulífi er veruleg hætta á að enn dragi úr hlut kvenna í stjórnum atvinnu- og fjármálafyrirtækja en nær eingöngu karlar hafa leikið aðalhlutverkin í þeirri gífurlegu tilfærslu á völdum og eignum sem farið hefur fram í þjóðfélaginu að undanförnu og mun halda áfram.

Þess vegna fagna ég því að hæstv. ráðherra ætlar að grípa til þessara aðgerða. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hverjir sitja í stjórnum þeirra nefnda sem hún nefnir, ef það eru stjórnmálaflokkarnir mun stjórnarandstaðan ekki koma líka að því máli? Hvaða tímamörk hefur nefndinni verið sett til að skila niðurstöðu? Einnig vil ég spyrja hana að því hvort við megum eiga von á frumvarpi frá henni á þessu þingi um að lögfesta tiltekið lágmarkshlutfall af hvoru kyni í stjórnum hlutafélaga eins og ráðherra nefnir og ég fagna svörum hennar.