131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Viðskiptahættir tryggingafélaga og banka.

314. mál
[12:36]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr: „Er ráðherra reiðubúinn að leita álits Samkeppnisstofnunar á því hvort ástæða sé til að kanna hvort verðsamráð eða ólöglegir viðskiptahættir tíðkist hjá tryggingafélögunum eða í bankakerfinu, samanber upphafsákvæði 5. gr. samkeppnislaga?“

Svarið er eftirfarandi: Í 1. mgr. 5. gr. samkeppnislaga segir að viðskiptaráðherra fari með framkvæmd laganna en í umboði hans annist samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Umrædd stjórnvöld hafa verið fullkomlega sjálfstæð í öllum störfum sínum allt frá gildistöku laganna, óháð afskiptum stjórnmálamanna.

Ég hef í störfum mínum lagt ríka áherslu á fullkomið sjálfstæði samkeppnisyfirvalda. Með vísan til þess treysti ég samkeppnisyfirvöldum best til að meta hvernig þau skipuleggja störf sín, þar með talið að ákveða hvort ástæða sé til að kanna samkeppnis- og viðskiptahætti einstakra fyrirtækja eða á einstökum mörkuðum. Ég tel því ekki ástæðu til að leita álits Samkeppnisstofnunar á því hvort ástæða sé til að kanna það sem hv. þm. nefnir í fyrirspurn sinni.