131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Atvinnurekstur í smáum fyrirtækjum.

95. mál
[12:46]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Svar við fyrstu spurningunni er á þessa leið:

Unnið hefur verið að margvíslegum aðgerðum til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum hér á landi, enda falla flest íslensk fyrirtæki innan þess ramma að teljast til þessa flokks. Aðgerðir stjórnvalda og ráðuneytis á þessu sviði á umliðnum árum og missirum má því skilgreina sem framkvæmdaáætlun á þessu sviði. Fjölbreytt starf er innt af hendi er varðar fyrirtæki á þessu sviði innan stofnana svo sem Impru, nýsköpunarmiðstöðvar, Iðntæknistofnunar, rannsóknarstofnana, atvinnuþróunarfélaga og annarra sem að þessum málum koma. Þetta varðar margvísleg verkefni og stuðning við frumkvöðla, einstaklinga og fyrirtæki.

Impra, nýsköpunarmiðstöð er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki og er deild innan Iðntæknistofnunar en hefur jafnframt skrifstofur í Reykjavík og á Akureyri. Með starfseminni er miðað að mótun stuðningsverkefna sem stuðla að bættum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og framgangi viðskiptahugmynda. Auk þess er Impra vettvangur samstarfs íslenskra og erlendra frumkvöðla og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Einnig er stofnunin ráðgjafi stjórnvalda um stuðningsaðgerðir við nýsköpun og bætt rekstrarskilyrði og rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hjá Impru er einnig aðsetur Félags kvenna í atvinnurekstri, hjá Impru er á einum stað hægt að leita aðstoðar um allt sem viðkemur viðskiptahugmyndum og almennum rekstri fyrirtækja, hægt er að leita til sérfræðinga á ýmsum sviðum um leiðsögn og upplýsingar varðandi mismunandi þætti hugmynda og reksturs. Jafnframt eru gefin út leiðbeiningarit og fylgst náið með því sem er að gerast hérlendis og erlendis fyrir frumkvöðla og fyrirtæki.

Meðal verkefna á árinu 2003–2004 sem rekin eru af Impru eru m.a. nýsköpun í starfandi fyrirtækjum, 14 verkefni, skrefi framar, ráðgjafarverkefni, 20 verkefni, vöruþróun í starfandi fyrirtækjum, 27 verkefni, frumkvöðlastuðningur, 55 verkefni, átak til atvinnusköpunar, 118 verkefni, og samstarfsverkefni með atvinnuþróunarfélögum, 11 verkefni.

Í nóvember verður undirritaður samstarfssamningur milli Impru og Byggðastofnunar um kynningu á klasasamstarfi og stuðningi við fyrirtæki á landsbyggðinni sem vilja byggja upp klasa. Í tengslum við það samstarf mun fljótlega koma út rit um klasa en jafnframt hefur verið unnið að úttekt á samstarfi fyrirtækja á landsvísu og tækifærum í því sambandi.

Árið 2003 voru undirritaðir nýir samningar Byggðastofnunar við átta atvinnuþróunarfélög um verkefni á sviði atvinnu- og byggðaþróunar. Er tilgangurinn sá að gera samningana markvissari og gegnsærri. Jafnframt því að gerðir voru nýir samningar við félögin voru greiðslur til þeirra hækkaðar frá því sem verið hafði. Öll þessi starfsemi gefur glöggt til kynna að áherslur og verkefni er tengjast atvinnurekstri hjá smáum og meðalstórum fyrirtækjum hafa verið í forgangi hér á landi.

Á heimasíðu Impru, Iðntæknistofnunar og atvinnuþróunarfélaga má sjá yfirlit um þessa starfsemi.

Svar við spurningu nr. 2: Ýmsar athuganir hafa staðið yfir á mörgum þeirra þátta sem tillagan gerir ráð fyrir. Þær stofnanir og aðilar sem hvað mest sjá um starf á þessu sviði svo sem Iðntæknistofnun, Impra, atvinnuþróunarfélög á landsbyggðinni o.fl. hafa haft umsjón með verkefnum og starfi á þessu sviði. Þess má einnig geta að með EES-samningnum gefst Íslandi kostur á að taka þátt í samevrópskum rannsóknum sem gefið hafa mikilvægar samanburðarupplýsingar sem ekki er tími til að skýra nánar hér. Ísland hefur einnig tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknum á sviði samkeppnishæfni sem varðar þessi fyrirtæki. Hafi ekki farið fram einhver rannsókn sem tiltekin er í ályktun Alþingis verður stefnt að því að slíkt verði gert.

Við spurningu nr. 3 er svarið já. Eins og komið hefur fram eru ýmsar áherslur þingsályktunartillögunnar þegar komnar til framkvæmda í þeirri fjölbreyttu starfsemi sem nefnd hefur verið hér að framan til að auðvelda starf frumkvöðla og lítilla og meðalstórra fyrirtækja og frekari verkefni eru jafnramt fyrirhuguð. Stefnt er að því að gera Alþingi grein fyrir starfi þessu haustið 2005.