131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Háhitasvæði við Torfajökul.

122. mál
[12:58]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurnin sem til mín er beint er svohljóðandi:

„Hafa orkufyrirtæki sýnt háhitasvæðinu við Torfajökul áhuga sem virkjunarkosti og, ef svo er, hvaða orkufyrirtæki eru það? Hver er afstaða ráðherra til rannsókna og virkjunar á þessum stað?“

Svarið er eftirfarandi: Orkufyrirtæki hafa eðlilega sýnt áhuga á rannsóknum og nýtingu háhitans á Torfajökulssvæðinu, enda er hér um að ræða stærsta háhitasvæði landsins. Á árunum 2001 og 2002 bárust iðnaðarráðuneytinu óskir um rannsóknarleyfi með ósk um forgang að nýtingarleyfi á Torfajökulssvæðinu frá Hitaveitu Suðurnesja og Landsvirkjun. Ráðuneytið leitaði umsagnar á þessum umsóknum hjá Orkustofnun í samræmi við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í bréfi stofnunarinnar kom fram að hún teldi nauðsynlegum undirbúningsrannsóknum sínum ekki lokið en á undanförnum 5–10 árum hefur Orkustofnun lagt nokkra áherslu á rannsóknir á þessu svæði. Raunar hefur stofnunin unnið að rannsóknum við Torfajökul í rúma þrjá áratugi með hléum, enda er hér um að ræða a.m.k. 130 ferkílómetra landsvæði sem telst vera háhitasvæði. Í ljósi þess að nauðsynlegum grunnrannsóknum var ekki lokið á svæðinu svaraði iðnaðarráðuneytið erindi orkufyrirtækjanna á þann veg að beiðni um rannsóknarleyfi með forgang að nýtingarleyfi væri hafnað að svo stöddu.

Afstaða mín til rannsókna á þessu svæði er jákvæð. Ég tel eðlilegt að haldið verði áfram nauðsynlegum virkjana- og náttúrufarsrannsóknum. Í skýrslu um niðurstöður fyrsta áfanga rammaáætlunar var raunar bent á rannsóknir á Torfajökulssvæðinu sem eitt af helstu verkefnum næsta áfanga rammaáætlunar. Svæðið er mikilvægt, bæði vegna mikillar orkugetu en einnig vegna mikilla náttúruverðmæta og útivistarhagsmuna. Sökum þess hve svæðið er stórt er ekki útilokað að mínu mati að nýta mætti orku þess að nokkru leyti án þess að gengið yrði á verndar- og útivistarhagsmuni en það verða frekari rannsóknir að leiða í ljós.