131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Háhitasvæði við Torfajökul.

122. mál
[13:00]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í fyrsta lagi held ég að strangt tekið sé kannski ekki rétt að Torfajökulssvæðið sé stærsta háhitasvæði landsins. Það hygg ég að sé í Vatnajökli, Grímsvötn og nágrenni, svo að öllu sé til haga haldið. Kannski má hins vegar segja að Torfajökulssvæðið sé stærsta háhitasvæðið sem er aðgengilegt og ekki þakið ís.

Varðandi hins vegar spurninguna um þetta svæði er mjög tímabært að taka til skoðunar hvort við ætlum t.d. yfir höfuð að bjóða upp á nýtingu á því, jafnmikil verðmæti og þar eru í húfi þar sem eru Landmannalaugar og svæðið allt meira og minna í kringum Torfajökul. Þó að það hljómi voðalega sakleysislega að segja rannsóknir fylgja þeim hlutir sem er ekkert endilega sjálfgefið að leyfa á þessu svæði, eins og umtalsverð vegalögn. Ég tel fyllilega réttmætt að taka til skoðunar hvort Torfajökulssvæðið sé ekki t.d. ein af þeim náttúrugersemum okkar, eins og ýmis fallvötn, fossar og annað slíkt, sem við bara afgreiðum fyrir fram að verði látin ósnortin um aldur og ævi.