131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Háhitasvæði við Torfajökul.

122. mál
[13:01]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef hlustað með athygli á hæstv. iðnaðarráðherra og fagna því að hún skuli ekki hafa gefið leyfi til rannsókna með því sem í því felst, og síðasti hv. ræðumaður gerði að svolitlu leyti grein fyrir, meðan grunnrannsóknum er þar ekki lokið af hálfu Orkustofnunar. Það sem vekur athygli mína er hins vegar þetta: Hvaða forsendur gefur ráðherrann sér aðrar en þessar fyrir því að veita leyfi til rannsókna og síðan til virkjunar á þessum stöðum? Við erum með fyrri hluta rammaáætlunar sem hefur verið lokið en í raun og veru hafa aldrei fengist svör við því hvað eigi að gera við hann og síðan hvenær síðari hlutinn fari af stað en fjárveitingar til hans og gangur og áhersla á að hann verði kláraður eru greinilega miklu minni en með fyrri hlutann. Olli þá fyrri hluti þess verks ráðherranum vonbrigðum eða telur ríkisstjórnin þetta verk ekki lengur þess virði að verja til þess fé og starfskröftum?