131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Háhitasvæði við Torfajökul.

122. mál
[13:05]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Af því að rammaáætlun var nefnd hér er hún einmitt tæki til þess að átta sig á því hvaða virkjanakostir eru álitlegastir, líklegastir, raunhæfastir og bestir fyrir Ísland. Ég vil þá láta það koma fram hér að 2. áfangi er þegar hafinn þannig að það stendur ekki á okkur í því sambandi.

Ég get samt alveg tekið undir það með hv. þingmönnum sem hér hafa talað að þetta er eitt af þeim svæðum sem eðlilegt er að horft sé til sem eins af dýrmætustu svæðum okkar með tilliti til náttúru og umhverfis. Hvar tökum við umræðuna? Ég veit ekki betur en að Alþingi sé alltaf vettvangur umræðu þannig að hér getum við svo sannarlega rætt þessi mál og höfum fleiri tækifæri til þess. Við höfum sett mál í ákveðinn farveg lagalega séð og þau þurfa að fara í gegnum umhverfismat. Fljótlega verður lagt fram frumvarp um það með hvaða hætti við veljum framkvæmdaaðila hverju sinni, bæði hvað varðar vatnsfall og jarðvarma því að vissulega er mikil breyting orðin á þegar Landsvirkjun hefur ekki lengur þær skyldur og þau forréttindi sem hún í raun hefur haft. Nú er þetta orðið opið öðrum fyrirtækjum og þá þurfum við sannarlega að vanda okkur við að móta reglurnar um hvernig framkvæmdaaðilinn skuli valinn hverju sinni.

Ég þakka fyrir þessa umræðu og fyrirspurn því að ég er alveg sammála því að þetta er eitt af stóru málunum.