131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.

123. mál
[13:07]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins í framhaldi af umræðu um síðasta mál, auðvitað munum við alltaf halda áfram að taka upp mál á Alþingi en það sem ég á við er: Hvernig tryggjum við að umræðan sé tekin hinum megin frá, ekki bara um hversu verðmætt sé að virkja heldur hversu verðmætt er að geyma? Það er endalaus umræða.

Hér er ég með fyrirspurn til iðnaðarráðherra:

Hefur verið sótt um rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun? Hver er staða mála varðandi Villinganesvirkjun annars vegar og hins vegar Skatastaðavirkjun?

Þessi fyrirspurn var að sjálfsögðu komin fram á Alþingi áður en umræðan varð fyrir 3–4 vikum um það að sveitarfélagið hefur ákveðið að setja þessa virkjanir — nú hristir þingmaðurinn höfuðið — ég taldi að niðurstaða hefði verið komin. Að minnsta kosti (Gripið fram í: Tillaga.) var tillaga um að setja virkjanirnar á skipulag. Það er þó a.m.k. komin í gang umræða og meiri vitneskja en þegar ég lagði þessa fyrirspurn fram. Alþingi leyfði Villinganesvirkjun sem var 30 megavatta virkjun, og ekki mjög hagkvæm eftir því sem manni heyrist, og mér skilst að hugsanleg Skatastaðavirkjun þurfi ekki að koma fyrir þingið fremur en aðrar slíkar framkvæmdir þannig að það erum þá við sem tökum upp umræðuna hér. Hún kemur ekki sjálfkrafa inn á þingið og því ákvað ég að spyrja hver staðan væri og hvort búið væri að sækja um rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun.

Hér kom t.d. fram í málflutningi hv. þm. Jóns Bjarnasonar í umræðu um lög um mat á umhverfisáhrifum fyrir stuttu síðan að í raun og veru væri búið að fara með þessa tillögu fyrir Skipulagsstofnun sem hefði fyrir sitt leyti heimilað Villinganesvirkjun. Hann benti á alvarlega vankanta sem væru á því máli um að skoða þyrfti afleiðingar eftir á. Okkur sem vorum í þessum sal við þá umræðu hnykkti mjög við að heyra málflutning þingmannsins og hvort það hefði getað verið eitthvað takmörkuð umfjöllun um málið hvað varðar Villinganesvirkjun sem þegar hefur leyfi frá Alþingi.

Þá er spurningin: Hvernig er með Skatastaðavirkjun? Þetta er líka mjög sérstakt svæði, þessi miklu gljúfur. Annað gljúfur fellur þvert á það gljúfur sem á að virkja. Þetta er mjög fagurt svæði og hrikalegt og þarna mun þetta mál stangast á við ferðaþjónustuna. Það er mjög mikið umhugsunarefni hvar og hvernig hin nýtingin er metin sem felst í að varðveita landið og fara ekki út í virkjanir.