131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Villinganesvirkjun og Skatastaðavirkjun.

123. mál
[13:15]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Aðalatriði þessa máls er auðvitað það að ef farið verður í virkjunarframkvæmdir í Skagafirði, sem allt auðvitað mælir með, sérstaklega varðandi Skatastaðavirkjun sem er stærri virkjunin og miklu þýðingarmeiri, á að nýta þessa orku til atvinnusköpunar í héraði, sá er kjarni málsins.

Í þessu sambandi vil ég líka benda á það að rétt vestan við er síðan Blönduvirkjun sem ekki hefur verið nýtt til atvinnusköpunar í héraði og þess vegna mælir allt með því að þetta sé samnýtt til þess að koma Norðurlandi vestra á kortið sem hinum eðlilegasta næsta stóriðjukosti í landinu.

Virðulegi forseti. Það er allt sem mælir með því, bæði atvinnulegar aðstæður í héraði og eins þessar aðstæður sem ég er hér að nefna, og það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem er sú, og var mótuð t.d. með stóriðjuuppbyggingunni á Austfjörðum, að nýta orkusköpunina til atvinnuuppbyggingar í héraði. Þess vegna er hið eðlilega og rökrétta svar og niðurstaða af öllu saman sú að hraða beri þessum rannsóknum til þess að við getum farið að undirbúa (Forseti hringir.) eðlilega uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi vestra eins og heimamenn gjarnan vilja og hafa óskað eftir.