131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tilraunir með vindmyllur.

124. mál
[13:29]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í júlí 2001 skipaði ég nefnd er kanna skyldi hvort og með hvaða hætti unnt væri að koma á fót sjálfbæru orkusamfélagi í Grímsey. Nefndin skilaði áliti sínu í febrúar 2003. Nefndin bar saman í starfi sínu nokkur orkukerfi og árlegan kostnað við núverandi kerfi í eyjunni.

Í megintillögum nefndarinnar var lagt til að rannsakaðir yrðu fyrst möguleikar á að finna heitt vatn í Grímsey. Á síðasta ári voru þar gerðar hitastigsboranir sem ekki lofa góðu um öflun á heitu vatni, því miður.

Nefndin lagði einnig til að ráðist yrði í tæknilega úttekt á samkeyrslu á rekstri vindmyllu og dísilrafstöðvar í eyjunni. Gerður hefur verið vindatlas fyrir eyjuna á grunni afar nýtanlegra vindmælinga þar árum saman. Rafmagnsveitur ríkisins hafa annast raforkuframleiðslu í eynni og hafa reglulega fylgst með þróun vindmyllna fyrir aðstæður eins og þar eru. Enn sem komið er virðist ekki borga sig að reisa vindmyllur til raforkuframleiðslu þar í stað dísilstöðvar en taka ber fram að þróunin í gerð vindmyllna hefur á undanförnum árum verið ör þannig að hugsanlegt er að innan fárra ára reynist hagkvæmt að reisa þar vindrafstöð. Taka ber fram að eigi að síður yrði nauðsynlegt að framleiða áfram um 20% raforkunnar þar með dísilstöð.

Eins og staða raforkukerfis okkar er í dag og í náinni framtíð er ólíklegt að nægilega hagkvæmt verði að reisa vindmyllur hér á landi á næstu árum eða áratugum þar eð raforkuverð frá vindmyllum er í dag langtum hærra en frá nýjum vatnsorku- og jarðgufuvirkjunum. Í einangruðum rafkerfum eins og Grímsey gegnir nokkru öðru máli. Þar er líklegt að fyrr verði hagkvæmt að reisa vindmyllu en í samtengdu raforkukerfi landsins.