131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tilraunir með vindmyllur.

124. mál
[13:36]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að taka undir það sem hér hefur komið fram að enn sem komið er er aðgengi okkar að ódýrri vistvænni orku, vatnsafls- og jarðvarmaorku, það miklu hagkvæmara að það er niðurstaða sérfræðinga að í það heila tekið svari ekki enn kostnaði að fara í vindorkuna. Hins vegar hljótum við, og það er það sem hlýtur að vera unnið að til lengri tíma litið, að skoða aðra möguleika. Að því kemur auðvitað að aðgengi okkar að vatnsafli og jarðvarma verður takmarkað og þá þurfum við að hafa aðra möguleika. Þar koma atriði eins og vindmyllur, sjávarföllin og aðrir slíkir þættir.

Hins vegar varðandi vindmyllur gerist það að stundum verða logndagar og þá stoppa vindmyllurnar. Í Grímsey var verið að hugsa um dísil en ég trúi að vetnistæknin muni gegna þar ákveðnu hlutverki til að svara logninu. Ég minni líka á það sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði, vindmyllur eru ekki alveg án þess að skaða umhverfið.