131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Tilraunir með vindmyllur.

124. mál
[13:38]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún hefur verið áhugaverð. Mér finnst líka miður að ekkert verði af þessari tilraun. Ég er sammála því að auðvitað getur verið sjónmengun af vindmyllum. Það þarf þó ekki að vera, það fer eftir staðsetningunni. Þær geta líka verið úti í hafi þannig að menn finni ekki fyrir hávaðanum. Svo er sá kostur að ef breytingar verða er hægt að taka þær niður. Það er ekki þessi ofboðslega röskun eins og verður t.d. af vatnsaflsvirkjun.

Það sem mér finnst skipta máli í svari ráðherrans er að nefna samanburð á orku frá vindmyllum og dísilframleiðslu. Það finnst mér ekki passa fyrir land sem kynnir sig úti um allan heim sem landið sem ætlar að verða fyrsta hreina hagkerfið af því að ekki á að nota mengandi orku. Mér finnst það veikleiki í svarinu. En ég spyr ráðherrann bara í lokin:

Úr því að ekki varð af þessu verkefni í Grímsey, kæmu aðrir staðir til greina sem tilraunaverkefni? Mér finnst áhugavert að við gerum tilraun með þennan orkukost.