131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Langtímaatvinnuleysi.

80. mál
[13:42]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Því miður herjar atvinnuleysi, sá hvimleiði vágestur, nú með þó nokkrum þunga á landsmenn. Atvinnuleysi er um þrír af hundraði eða hefur verið nálægt því undanfarin missiri og lætur síst undan síga, jafnvel þó að menn telji að hið mesta góðæri ríki nú í landinu, gullöld og gleðitíð. Um það má deila og a.m.k. verða menn lítið varir við slíkt sums staðar, þar á meðal hygg ég að þeir atvinnulausu hafi lítið af því að segja. Það er ekki síður alvarlegt að vísbendingar eru um að samsetning þessa atvinnuleysis sé jafnvel nokkuð að breytast og hér sé að festast í sessi svokallað langtímaatvinnuleysi, þ.e. að ákveðnir hópar, fjölmennir hópar, séu varanlega utan vinnumarkaðarins og er þá oftast miðað við að menn hafi verið án atvinnu í hálft eða eitt ár eða eitthvað í þeim dúr.

Það er líka athyglisvert að hér virðast vera að skapast þær aðstæður að atvinnuleysi sé ekki með beinum hætti tengt við hagsveifluna og þó svo að hagvöxtur sé í landinu láti atvinnuleysið ekkert undan síga. Verður mönnum þá gjarnan hugsað til Bandaríkjanna þar sem einmitt hefur verið við slíkt ástand að glíma og menn telja það að ýmsu leyti marka nýja tíma í þessum efnum. Þá vakna spurningar um hvort einhver hluti vinnuaflsins sé einfaldlega ekki gjaldgengur á vinnumarkaðnum eins og hann er þá orðinn og vegna þeirrar kröfuhörku eða þess andrúmslofts og tíðaranda sem þar ríkir. Það gæti vel fallið að þeirri staðreynd að því miður er stór hluti þeirra sem eru án atvinnu ófaglært vinnuafl.

Við þetta mætti líka jafnvel tengja vaxandi fjölda öryrkja en þær skýringar hafa komið fram, og vitna ég þar m.a. til formanns Örykjabandalagsins, að ein helsta ástæða þess að öryrkjum hefur fjölgað svo mjög sé sú að harkan á vinnumarkaði hafi aukist til mikilla muna og þeim standi minni möguleikar til boða sem að einhverju leyti hafi skerta starfsorku.

Að þessu öllu saman gefnu, frú forseti, hef ég ásamt með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. félagsmálaráðherra varðandi langtímaatvinnuleysi:

1. Eru til vísbendingar um að langtímaatvinnuleysi sé að aukast og festast í sessi hér á landi og hvernig skilgreina og kortleggja stjórnvöld slíkt?

2. Hvert er hlutfall þeirra sem teljast langtímaatvinnulausir af heildarfjölda atvinnulausra?

3. Eru í gangi eða fyrirhugaðar sérstakar aðgerðir af hálfu ráðuneytisins til að taka á málefnum langtímaatvinnulausra?