131. löggjafarþing — 32. fundur,  17. nóv. 2004.

Langtímaatvinnuleysi.

80. mál
[13:45]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Kolbrún Halldórsdóttir hafa lagt fyrir mig fyrirspurn um langtímaatvinnulausa.

Í lok september sl. voru 1.414 einstaklingar á atvinnuleysisskrá sem falla undir þá skilgreiningu að teljast langtímaatvinnulausir, þ.e. hafa verið samfellt án atvinnu í lengri tíma en sex mánuði. Langtímaatvinnulausir voru því um 33% allra atvinnulausra á þeim tímapunkti, þar af hafði 701 einstaklingur verið lengur á skrá en eitt ár, þ.e. 16,4% allra atvinnulausra.

Eins og fram kom í skriflegu svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um sama efni fyrr í vikunni verður að svara því játandi að langtímaatvinnuleysi virðist hafa verið að aukast hér á landi síðustu ár. Á árinu 2003 voru að meðaltali 26,4% atvinnulausra langtímaatvinnulausir en 19% árið 2002. Hlutfall langtímaatvinnulausra að meðaltali á þessu ári liggur að sjálfsögðu enn ekki fyrir.

Ef litið er hins vegar til fyrstu níu mánaða þessa árs var hlutfall langtímaatvinnulausra að meðaltali 31,5% allra atvinnulausra á þeim tíma. Til samanburðar má nefna að langtímaatvinnulausir voru 26,8% allra atvinnulausra að meðaltali á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Í fyrrgreindu svari mínu vakti ég einnig athygli á þróun atvinnuleysisskráningar frá því að atvinnuleysi eykst og þangað til það nær jafnvægi á ný. Þykir mér ekki ástæða til þess að endurtaka það hér en tel þó vert að ítreka það að fjöldi langtímaatvinnulausra hefur tilhneigingu til að aukast smám saman meðan atvinnuástandið er að ná aftur jafnvægi eftir bakslag.

Hæstv. forseti. Þessi þróun veldur mér og öðrum þeim sem að þessum málum starfa engu að síður vissum áhyggjum enda þótt erfitt sé að segja til um hvort langtímaatvinnuleysi sé að festast í sessi. Þetta er tiltölulega nýr vandi sem við erum að horfast í augu við og það er mikilvægt að bregðast við honum. Í því ljósi ákvað stjórn Vinnumálastofnunar þegar í byrjun þessa árs að langtímaatvinnulausir yrðu forgangshópur í vinnumarkaðsúrræðum á árinu ásamt ungu fólki á atvinnuleysisskrá.

Að því er varðar hóp langtímaatvinnulausra hefur verið lögð áhersla á menntun og starfstengd úrræði en þau hafa haft jákvæð áhrif á fólk sem lengi hefur verið án atvinnu. Þá er jafnframt lögð áhersla á starfsráðgjöf en í því efni hefur verið lögð áhersla á einstaklingsbundna ráðgjöf og það að efla hana.

Eins og ég hef margsagt hér, hæstv. forseti, eru úrræði til handa atvinnulausum ætluð til að auka tækifæri þeirra á vinnumarkaðnum. Markmiðið er ætíð að koma í veg fyrir að fólk verði atvinnulaust til lengri tíma. Einstaklingar sem eru án atvinnu eiga þess kost að sækja ýmis úrræði á vegum svæðisvinnumiðlana til að auka færni sína og starfsmöguleika. Sérstök áhersla er lögð á að virkja þá sem lengst hafa verið án atvinnu en þeir njóta ákveðins forgangs um þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum.

Hæstv. forseti. Vinnumálastofnun og svæðisvinnumiðlanirnar eru meðvitaðar um þessa þróun langtímaatvinnuleysis og munu áfram leggja áherslu á að veita langtímaatvinnulausum sérstaka þjónustu. Það er mikilvægt að veita þessum hópi einstaklingsmiðaða þjónustu, enda getur verið um mikið niðurbrot að ræða að vera án atvinnu í langan tíma.

Þá þarf jafnframt að velta upp hvort um sé að ræða nýja stöðu í atvinnuleysisskráningu sem sé að taka sér varanlega bólfestu innan kerfisins. Eins og ég sagði áðan tel ég of snemmt að segja til um það, atvinnuleysi hefur verið að sveiflast til hjá okkur þótt ákveðið áhyggjuefni sé að þrátt fyrir góðan hagvöxt er atvinnuleysi meira en við höfum átt að venjast í slíku árferði.

Ég get fullvissað hv. fyrirspyrjendur um að við erum á varðbergi og fylgjumst með gangi mála. Nefnd sem ég skipaði sl. sumar til að fara yfir þessi mál mun huga vel að vinnumarkaðsúrræðum, ekki síður en atvinnuleysistryggingakerfinu sjálfu. Í henni eiga sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, opinberum starfsmönnum, Samtökum atvinnulífsins, fjármála- og félagsmálaráðuneyti. Ég geri fastlega ráð fyrir að við eigum eftir að sjá tillögur sem vert er að skoða í framhaldinu sé það mat nefndarinnar að breytinga sé þörf. Þangað til, hæstv. forseti, treysti ég stjórn Vinnumálastofnunar fyrir því að leggja áfram á það mat hvaða hópar þurfa helst á aðstoð að halda innan kerfisins, og þá hvers konar aðstoð.